Körfubolti

Mikill munur á gengi toppliðanna í fyrsta leik ársins síðustu tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar hafa ávallt unnið fyrsta leik ársins síðan um aldamótin.
KR-ingar hafa ávallt unnið fyrsta leik ársins síðan um aldamótin.
Fyrsta umferð Iceland Express deildar karla á árinu 2009 hefst með þremur leikjum í kvöld. Það hefur gengið misjafnlega vel hjá liðum deildarinnar að koma sér af stað eftir hátíðarnar síðustu ár. Þetta sést sérstaklega vel hjá toppliðum deildarinnar, KR og Grindavík.

KR-ingar hafa byrjað árið vel undanfarin ár og hafa unnið fyrsta leik ársins allar götur síðan árið 2000. Síðastir til að vinna KR í fyrsta leik ársins voru Tindastólsmenn sem unnu 86-80 sigur á KR í DHL-Höllinni 13. janúar 2000. Suðurnesjaliðin Grindavík og Keflavík hafa ekki komið vel út úr fyrsta leik ársins undanfarin ár og mun verr en nágrannar þeirra í Njarðvík. Á sama tíma og Njarðvíkingar hafa unnið 5 af 7 leikjum sínum í 1. umferð nýs árs frá 2002 hafa nágrannarnir úr Grindavík og Keflavík aðeins unnið samanlagt 5 af 14 leikjum sínum.

Grindvíkingar hafa aðeins unnið 2 af 7 leikjum í fyrstu umferð nýs árs frá 2002 og þar á meðal er frábær sigur liðs á ósigruðu liði Keflavíkur í fyrra. Fram að þeim leik hafði Grindavíkurliðið tapað fyrsta leik ársins fjögur ár í röð. Keflvíkingar hafa unnið 3 af 7 leikjum sínum en Keflavíkurliðið hefur tapað fyrsta leik sínum á nýju ári undanfarin tvö tímabil, 98-76 í Grindavík í fyrra og svo 100-98 fyrir Skallagrími í Borgarnesi árið áður.

Skallagrímsmenn hafa tapað fyrstu 11 leikjum tímabilsins og vonast örugglega til að gott gengi í fyrsta leik ársins komi til með að hjálpa þeim að landa fyrsta sigrinum þegar Blikar koma í heimsókn í Borgarnes í kvöld. Skallagrímur hefur unnið fyrsta leik ársins undanfarin fjögur tímabil þar á meðal bæði Keflavík (2007) og Njarðvík (2006). Blikar eiga aftur á móti enn eftir að byrja nýtt ár í úrvalsdeild með því að vinna fyrsta leik ársins en liðið reynir það í sjöunda skiptið í kvöld.

Gengi liðanna í deildinni í vetur í fyrsta leik ársins frá árinu 2002:

KR 100% (7 sigrar - 0 töp)

Snæfell 83% (5-1)

Njarðvík 71% (5-2)

Skallagrímur 67% (4-2)

Þór Ak. 67% (2-1)

ÍR 57% (4-3)

Keflavík 43% (3-4)

Tindastóll 33% (2-4)

Grindavík 29% (2-5)

Breiðablik 0% (0-3)

Stjarnan 0% (0-2)

FSU 0 leikir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×