Lífið

Barnsmóðir Cage vill fjárfúlgu og hús

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Hollywood-stjarnan Nicholas Cage á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir en fyrrverandi kærasta krefur hann um milljónir dollara og hús að auki.

Það er Christina Fulton, barnsmóðir Cage, sem ryðst nú fram með her lögfræðinga og vill 13 milljónir dollara, jafnvirði 1,6 milljarða króna, í bætur vegna ýmissa skulda sem hún fullyrðir að Samuel J Levin, bókari Cage, hafi komið henni í. Eins heldur hún því blákalt fram að Cage hafi, meðan á sambandi þeirra stóð, lofað henni húsi í Los Angeles og nú telur hún tímabært að fá það hús afhent án frekari tafa. Lögfræðingur Cage segir þessar kröfur gjörsamlega út í hött, dómstóll hafi þegar dæmt að Cage skuli greiða Fulton 6.000 dollara í framfærslukostnað mánaðarlega og þar við sitji.

Frekari kröfur séu algjörlega úr lausu lofti gripnar og þarna sannist það óyggjandi á karlinum að öllum góðverkum fylgi refsing. Þessi nýja og óvænta kröfulýsing Fulton er það efsta í bunkanum af fjölda fjárhagslegra áfalla sem leikarinn reynir nú af veikum mætti að vinna sig í gegnum og lítið þýðir víst að leita á náðir bókarans góða, Levin, þar sem hann á að sögn Cage langmesta sök á óreiðunni. Neyðist Cage nú til að selja fjölda fasteigna um allan heim til að reyna að standa í skilum því fyrrverandi kærustur eru ekki eina vandamálið, skatturinn krefur hann um sex milljónir dollara af vangreiddum tekjuskatti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.