Körfubolti

KR í úrslit eftir öruggan sigur á Grindavík

Jón Arnór Stefánsson
Jón Arnór Stefánsson

KR-ingar eru komnir í úrslit Subway bikarsins í körfubolta eftir öruggan sigur á Grindvíkingum í vesturbænum í dag 82-70.

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR tjáði Vísi að hann og lið hans hefðu undirbúið sig betur undir þennan leik en nokkurn annan í vetur og það skilaði sér greinilega í dag.

KR-liðið kom gríðarlega vel stemmt til leiks í troðfullu húsinu og hafði yfir 26-12 eftir fyrsta leikhluta, en stífur varnarleikur KR virtist hreinlega slá suðurnesjaliðið út af laginu.

Þegar upp var staðið var það fyrsti leikhlutinn sem gerði gæfumuninn fyrir KR því síðustu þrjá leikhlutana vann Grindavík með samtals tveimur stigum.

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í jöfnu liði KR með 19 stig og 8 fráköst, Fannar Ólafsson skoraði 15 stig og hirti 9 fráköst, Jason Dourisseau (11 frák) og Jakob Örn Sigurðarson skoruðu 14 stig hvor og Helgi Magnússon 13.

Hjá Grindavík var Nick Bradford í algjörum sérflokki í sóknarleiknum með 27 stig og 8 fráköst og Brenton Birmingham skoraði 11 stig, en enginn annar leikmaður liðsins skoraði meira en 9 stig.

Stemmingin í DHL-höllinni var stórkostleg í dag og engu líkara en komið væri fram í úrslitakeppni. Höllin var troðfull og hitinn eins og í gufubaði.

KR-ingar mæta annað hvort Njarðvík eða Stjörnunni í úrslitaleik bikarsins þann 15. febrúar nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×