Körfubolti

Jón Arnór vill komast í NBA-deildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson körfuboltakappi.
Jón Arnór Stefánsson körfuboltakappi.
Jón Arnór Stefánsson sagði í þættinum Utan vallar á Stöð 2 Sporti í kvöld að hann ætlaði sér að reyna að komast í NBA-deildina í körfubolta á nýjan leik.

Jón Arnór var á mála hjá Dallas Mavericks í eitt ár í upphafi áratugarins en fékk ekkert að spila með liðinu á tímabilinu. Hann ákvað því að fara til Evrópu þar sem hann hefur spilað í Þýskalandi, Rússlandi, Ítalíu og Spáni.

Jón Arnór er nú að spila með KR en stefnir á að fara í æfingabúðir í Bandaríkjunum í lok tímabilsins þar sem hann mun vonandi ná að vekja athygli á sér.

„Ég hef séð marga leikmenn í NBA-deildinni sem ég hef bæði verið að spila með og á móti í Evrópu," sagði Jón Arnór í þættinum.

„Ég hef verið að fá tilfinninguna fyrir því að spila aftur í NBA-deildinni. Ég tel mig eiga fullt erindi þangað. Ég gek vel keppt við þessa menn og fengið mínútur, bara ef ég kem mér í gott stand og fæ að sýna mig í Bandaríkjunum."

„Ég mun æfa í 4-6 vikur í Los Angeles þar sem umboðsskrifstofan mín og fer vonandi að æfa hjá einhverjum liðum til reynslu í kjölfarið."

Spurður hversu mikið hann eigi inni í körfuboltaheiminum sagðist Jón Arnór telja að hann væri enn talsvert frá sínu besta.

„Ég veit vel að ég hef kannski verið full latur undanfarin 2-3 ár og ekki nýtt sumarfríin mín eins og ég hefði viljað. En ég hlakka mikið til að klára tímabilið með KR eins vel og mögulegt er og fara svo til Bandaríkjanna."

„Ég er bara rétt að byrja í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×