Lífið

Stjörnur eitt augnablik

ljósmyndir Ein mynda Friobs á sýningu hans frá Goðafossi.
mynd Laurent Friob/Ljósmyndasafn reykjavíkur
ljósmyndir Ein mynda Friobs á sýningu hans frá Goðafossi. mynd Laurent Friob/Ljósmyndasafn reykjavíkur

Sýningin Stjörnur eitt augnablik, heitir eftir samnefndri myndröð ljósmyndarans Laurents Friob sem hann tók á Íslandi, nánar tiltekið af Goðafossi árið 2008. Nú opnar Friob sýningu á verkum úr röðinni á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Grófarhúsi. Um sýningu og viðfangsefnið segir Friob:

„Ljósmyndun er oft skilgreind sem vélræn eftirmynd raunveruleikans. Ljósmyndin er bútur sem er tekinn úr tíma og rúmi, pappírsbrot af óendanlegri dýpt. Myndavélin starfar líkt og stundaglas úr ljósi sem flöktir milli heima. Í ljósmyndun eru myndir baðaðar ljósi, ekki efni. Myndin frystir eitt augnablik af tímans óendanlega flæði. Það er eitthvað við myndatöku sem truflar tímans takt; spenna milli skilnings og skynjunar. Ljósmyndun er því fyrir mér svipuð og aðrir gagnslausir en þó ævarandi hlutir. Hún sýnir þörf okkar fyrir eitthvað sem glitrar innra með okkur; hvernig ljósið ljómar, slokknar, titrar og springur.“

Laurent Friob er fæddur í Lúxemborg, hinni gömlu vinaborg Íslendinga, en hann býr og starfar í Brussel. Hann er eðlisfræðingur og hljóðverkfræðingur að mennt en hefur ekki formlega listmenntun að baki. Laurent hefur tekið þátt í sýningum víðs vegar og var til að mynda fulltrúi Lúxemborgar í European Month of Photography – ljósmyndahátíðinni árið 2006 og hafa myndir hans einnig birst í virtum ljósmyndatímaritum.

Sýningin hefst 17. desember og er opin virka daga frá 12-19 og frá 13-17 um helgar. Hún verður uppi í Ljósmyndasafninu til 9. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.