Innlent

Guðmundur í Byrginu hóf afplánun í gær

Guðmundur Jónsson, kenndur við Byrgið.
Guðmundur Jónsson, kenndur við Byrgið.

Guðmundur Jónsson, betur þekktur sem Guðmundur í Byrginu hóf afplánun á tveggja og hálfs árs fangelsisdómi í gær.

Upphafleg átti Guðmundur að hefja afplánun sína í janúar s.l. en þá hafði hann áfrýjað máli sínu til dómsmálaráðuneytisins. Það hafnaði beiðni hans. Síðan losnaði pláss á Litla-Hrauni í gær og var Guðmundur þá sóttur heim til sín og fluttur á Hraunið.

Dómurinn sem Guðmundur afplánar nú er vegna kynferðisbrota en rannsókn lögreglu leiddi einnig í ljós grun um stórfelldan fjárdrátt og umtalsverð skattsvik.

Guðmundur var dæmdur af Hæstarétti þann 4. desember 2008 fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum sem höfðu verið skjólstæðingar hans í meðferðarheimilinu Byrginu en þar var hann forstöðumaður. Héraðsdómur hafði áður dæmt Guðmund í þriggja ára fangelsi en Hæstiréttur stytti dóminn um hálft ár.

Heimildir Vísis hermdu í upphafi að Guðmundur hefði verið handtekinn á heimili sínu í gær þar sem hann hafi ekki sinnt boðun um að mæta til afplánunar. Það mun ekki vera rétt og því verið leiðrétt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×