Á Gnitaheiði Guðmundur Andri Thorsson skrifar 9. febrúar 2009 06:00 Daglega berast fréttir af uppgjöri fjármálastofnana og engu líkara en að ný keppni sé hafin hjá samkeppnishetjunum sem forðum áttu í metingi um stærstu jeppana, sniðugustu nöfnin á eignarhaldsfélögunum, hæstu turnana og asnalegust poppstjörnurnar í afmælunum. Nú er tekist á um það hver tapaði mestu. Straumur-Burðarás hefur afgerandi forystu. Ekki hefur það félag nú reynst standa undir nafni; engum straumum hefur það veitt inn í þjóðlífið, nema kannski kampavíni. Burðarás reyndist hurðarás - um öxl þjóðinni. Þessar allt að því glaðhlakkalegu taptilkynningar hljóma eins og tvítugir gaurar að rifja upp fyllerí helgarinnar með tilheyrandi gauragangi. Sem þetta náttúrlega var. Maður fær æ sterkar á tilfinninguna að íslensku fjármáladrengirnir í útlöndum hafi verið eins og spýtustrákurinn Gosi á fyrsta skóladeginum - auðveld bráð Gengis-Kan-bræðrum og öðrum misindismönnum sem voru fljótir að leiða þessa einfeldninga með gýligjöfum og glamúr beint inn í landið þar sem börnum er breytt í asna. Hér heima var hins vegar pabbinn genginn af göflunum í örvæni í Seðlabankanum og það sauð á Samviskunni hans Gosa - Vilhjálmi Bjarnasyni… Spýtustrákar sum sé - eða kjánaprik að minnsta kosti og nefið bara lengdist. Uppgangur útrásargosanna, ofsi þeirra, algjört siðleysi og fullkominn skortur á samfélagslegri vitund eða raunverulegu verðmætamati gefur okkur ástæðu til að horfast lengi og af djúpri alvöru í augu við okkur sjálf, því að þetta vitnar um einhverja grundvallarmeinsemd í íslenskri menningu og samfélagi. Þessir drengir eru afurð íslensks samfélags. Þeir eru vitnisburður um íslenskt samfélag. Og siðrof þess. Ekkert stendur eftir af athöfnum þeirra nema eyðilegging, rústir, skuldir, fjúkandi drasl - sögur af klækjum og nauðljót hús við Höfðatún. Annars ekki neitt. Ekki ein tilraun til atvinnuuppbyggingar, umsvifa, sköpunar, athafna - eða yfirhöfuð nokkurs þess sem raunverulegir athafnamenn skildu eftir sig í lok æviverksins á þeirri tíð þegar peningar spruttu af viðskiptum í veruleikanum með verðmæti og framleiðslu en voru ekki glópagull sjónhverfinga og bókhalds. Þegar gaurarnir verða gamlir og líta yfir farinn veg sjá þeir ekkert nema rústir, heyra ekkert nema tómlegt gnauðið eftir voldugan gný fallsins. Nema… Eina von íslensku auðmannanna um sáluhjálp er sú að þeir gjöri iðrun og yfirbót - fari á námskeið hjá Vilhjálmi Bjarnasyni í raunverulegum viðskiptum og Vali Valssyni í raunverulegri bankastarfsemi, lesi ævisögu Thors Jensen til að fræðast um raunveruleg umsvif, skili svo þjóðinni aftur peningunum sem þeir rændu frá henni. Annars fer illa. Um það vitna gamlar sagnir sem brýnt er fyrir þá að kynna sér. Þær er meðal annars að finna í Völsunga sögu og Skáldskaparmálum Snorra Sturlunar, sem þeim hefði verið nær að lesa í Versló og framhaldsdeild Versló heldur en að læra eingöngu siðlausa klæki og bókhaldsbrellur. Einu sinni voru bræður sem hétu Reginn og Fáfnir. Þeir voru synir Hreiðmars nokkurs bónda sem fékk óvæntan auð í sonargjöld þegar æsir drápu fyrir honum Otur (sem var í Oturslíki þá) og fylltu belg hans með gulli sem Loki kúgaði út úr dvergnum Andvara til þess arna. Dvergurinn vildi fá að halda eftir einum gullbaug en Loki gaf sig ekki og fékk bauginn en Andvari lét þá bölvun fylgja að hver sem hann ætti myndi láta líf sitt. Þennan sjóð fékk sem sé Hreiðmar bóndi en synir hans, Reginn (sem var reyndar nafn á hermangsfyrirtæki á Keflavíkurflugvelli) og Fáfnir ágirntust gullið og drápu föður sinn. Fáfnir sveik svo Regin, hirti gullið og hélt með það á Gnitaheiði þar sem hann stofnaði eignarhaldsfélag. Þar lúrði hann á gullinu og breyttist í langan, stóran, slímugan og viðbjóðslegan orm. Slíkt gerist ævinlega þegar menn liggja á illa fengnu fé: Það er lögmál. Og þarna á Gnitaheiði lá Fáfnir á sínu gulli og átti dauflega vist - varð æ feitari og ógeðslegri, sveittari og leiðari með hverju árinu - og ríkari - uns Reginn tók til sinna ráða, fóstraði ungan og vaskan kappa og fékk hann til að koma með sér og sigrast á ófétinu. Það var Völsungurinn Sigurður Sigmundsson og hann sigraðist á Fáfni og var eftir það nefndur Fáfnisbani. Og dó - að vísu eftir glæsilegt kvennafar - en dó. Allir dóu. Mórall sögunnar: Allt visnar og deyr nálægt illa fengnu fé. Peningar verða að vísa á verðmæti - og skapa þau - annars eyða þeir og deyða. Þeir sem lúra á gulli á fjarlægum eyjum verða sjálfra sín vegna að skila því undireins. Annars breytast þeir í orma. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun KVISS BANG! - mætti lausnin sem bjargaði Svíum nýtast okkur ? Jakob Frímann Magnússon Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Mikilvægi samfélagslöggæslu Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Þetta er víst einkavæðing! Engilbert Guðmundsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Að eta útsæði Sigríiður Á. Andersen Skoðun Kjósum velferð dýra Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Daglega berast fréttir af uppgjöri fjármálastofnana og engu líkara en að ný keppni sé hafin hjá samkeppnishetjunum sem forðum áttu í metingi um stærstu jeppana, sniðugustu nöfnin á eignarhaldsfélögunum, hæstu turnana og asnalegust poppstjörnurnar í afmælunum. Nú er tekist á um það hver tapaði mestu. Straumur-Burðarás hefur afgerandi forystu. Ekki hefur það félag nú reynst standa undir nafni; engum straumum hefur það veitt inn í þjóðlífið, nema kannski kampavíni. Burðarás reyndist hurðarás - um öxl þjóðinni. Þessar allt að því glaðhlakkalegu taptilkynningar hljóma eins og tvítugir gaurar að rifja upp fyllerí helgarinnar með tilheyrandi gauragangi. Sem þetta náttúrlega var. Maður fær æ sterkar á tilfinninguna að íslensku fjármáladrengirnir í útlöndum hafi verið eins og spýtustrákurinn Gosi á fyrsta skóladeginum - auðveld bráð Gengis-Kan-bræðrum og öðrum misindismönnum sem voru fljótir að leiða þessa einfeldninga með gýligjöfum og glamúr beint inn í landið þar sem börnum er breytt í asna. Hér heima var hins vegar pabbinn genginn af göflunum í örvæni í Seðlabankanum og það sauð á Samviskunni hans Gosa - Vilhjálmi Bjarnasyni… Spýtustrákar sum sé - eða kjánaprik að minnsta kosti og nefið bara lengdist. Uppgangur útrásargosanna, ofsi þeirra, algjört siðleysi og fullkominn skortur á samfélagslegri vitund eða raunverulegu verðmætamati gefur okkur ástæðu til að horfast lengi og af djúpri alvöru í augu við okkur sjálf, því að þetta vitnar um einhverja grundvallarmeinsemd í íslenskri menningu og samfélagi. Þessir drengir eru afurð íslensks samfélags. Þeir eru vitnisburður um íslenskt samfélag. Og siðrof þess. Ekkert stendur eftir af athöfnum þeirra nema eyðilegging, rústir, skuldir, fjúkandi drasl - sögur af klækjum og nauðljót hús við Höfðatún. Annars ekki neitt. Ekki ein tilraun til atvinnuuppbyggingar, umsvifa, sköpunar, athafna - eða yfirhöfuð nokkurs þess sem raunverulegir athafnamenn skildu eftir sig í lok æviverksins á þeirri tíð þegar peningar spruttu af viðskiptum í veruleikanum með verðmæti og framleiðslu en voru ekki glópagull sjónhverfinga og bókhalds. Þegar gaurarnir verða gamlir og líta yfir farinn veg sjá þeir ekkert nema rústir, heyra ekkert nema tómlegt gnauðið eftir voldugan gný fallsins. Nema… Eina von íslensku auðmannanna um sáluhjálp er sú að þeir gjöri iðrun og yfirbót - fari á námskeið hjá Vilhjálmi Bjarnasyni í raunverulegum viðskiptum og Vali Valssyni í raunverulegri bankastarfsemi, lesi ævisögu Thors Jensen til að fræðast um raunveruleg umsvif, skili svo þjóðinni aftur peningunum sem þeir rændu frá henni. Annars fer illa. Um það vitna gamlar sagnir sem brýnt er fyrir þá að kynna sér. Þær er meðal annars að finna í Völsunga sögu og Skáldskaparmálum Snorra Sturlunar, sem þeim hefði verið nær að lesa í Versló og framhaldsdeild Versló heldur en að læra eingöngu siðlausa klæki og bókhaldsbrellur. Einu sinni voru bræður sem hétu Reginn og Fáfnir. Þeir voru synir Hreiðmars nokkurs bónda sem fékk óvæntan auð í sonargjöld þegar æsir drápu fyrir honum Otur (sem var í Oturslíki þá) og fylltu belg hans með gulli sem Loki kúgaði út úr dvergnum Andvara til þess arna. Dvergurinn vildi fá að halda eftir einum gullbaug en Loki gaf sig ekki og fékk bauginn en Andvari lét þá bölvun fylgja að hver sem hann ætti myndi láta líf sitt. Þennan sjóð fékk sem sé Hreiðmar bóndi en synir hans, Reginn (sem var reyndar nafn á hermangsfyrirtæki á Keflavíkurflugvelli) og Fáfnir ágirntust gullið og drápu föður sinn. Fáfnir sveik svo Regin, hirti gullið og hélt með það á Gnitaheiði þar sem hann stofnaði eignarhaldsfélag. Þar lúrði hann á gullinu og breyttist í langan, stóran, slímugan og viðbjóðslegan orm. Slíkt gerist ævinlega þegar menn liggja á illa fengnu fé: Það er lögmál. Og þarna á Gnitaheiði lá Fáfnir á sínu gulli og átti dauflega vist - varð æ feitari og ógeðslegri, sveittari og leiðari með hverju árinu - og ríkari - uns Reginn tók til sinna ráða, fóstraði ungan og vaskan kappa og fékk hann til að koma með sér og sigrast á ófétinu. Það var Völsungurinn Sigurður Sigmundsson og hann sigraðist á Fáfni og var eftir það nefndur Fáfnisbani. Og dó - að vísu eftir glæsilegt kvennafar - en dó. Allir dóu. Mórall sögunnar: Allt visnar og deyr nálægt illa fengnu fé. Peningar verða að vísa á verðmæti - og skapa þau - annars eyða þeir og deyða. Þeir sem lúra á gulli á fjarlægum eyjum verða sjálfra sín vegna að skila því undireins. Annars breytast þeir í orma.