Lífið

Íslenskir hönnuðir til Færeyja

Sara McMahon skrifar
Árnheiður Edda Hermannsdóttir er ein þeirra hönnuða sem munu selja hönnun sína í nýrri verslun í Færeyjum.
Árnheiður Edda Hermannsdóttir er ein þeirra hönnuða sem munu selja hönnun sína í nýrri verslun í Færeyjum. Vísir/Valli
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá mun skemmtistaðurinn Sirkús verða opnaður 11. desember í Færeyjum. Á jarðhæð hússins verður að auki starfrækt tískuverslun sem hefur hlotið nafnið Zoo, en þar verður til sölu hönnun eftir íslenska og færeyska hönnuði.

Árnheiður Edda Hermannsdóttir klæðskeranemi er einn þeirra upprennandi hönnuða sem munu selja vörur sínar í versluninni sem er rekin af Jóel Briem og Sunnevu Eysturstein. Hún segir verkefnið bæði vera spennandi auk þess sem það virki sem hvatning fyrir unga hönnuði.

Ásamt Árnheiði Eddu munu Gígja Ísis Guðjónsdóttir, Philippe Clause, Sesselja Hlín Rafnsdóttir, Katrín Alda Rafnsdóttir og Eygló Lárusdóttir selja hönnun sína í versluninni.

„Sesselja hefur verið að hanna kraga, peysur og ýmislegt annað og ég verð með kjóla, gallabuxur og leggings svo fátt eitt sé nefnt. Philippe er að hekla skemmtilega kraga úr endurunnu efni og Katrín Alda og Eygló hafa vakið mikla athygli undanfarið fyrir fallega hönnun sína.“

„Þetta er í fyrsta sinn sem hönnun mín fer í sölu einhvers staðar svo þetta er mjög spennandi,“ segir Árnheiður Edda sem ætlar að vera viðstödd opnunina. „Ég fer út og ætla að taka þátt í opnuninni. Það hitti líka svo vel á að ég klára prófin deginum áður þannig að þetta verður langþráð frí,“ segir Árnheiður Edda að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.