Lífið

Jói Fel og Jóhanna elda á sama tíma

Ósáttur við að þættirnir lendi á sama tíma.
Ósáttur við að þættirnir lendi á sama tíma.

„Mér finnst Jói flottur og gera vel. Ég kemst ekki í sporin hans,“ segir fréttakonan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir um keppinaut sinn í matreiðsluþáttabransanum.

Nú er komin upp sú staða að nýr matreiðsluþáttur Jóhönnu og ný þáttaröð Jóa Fel verða sýndir á sama tíma í vetur; á fimmtudögum klukkan 20.10. Jóhanna telur að um tilviljun sé að ræða og hvetur fólk til þess að nýta plúsrásirnar og horfa á báða þættina. „Ég held að það séu mjög margir sem hafa mjög gaman af því að horfa á matreiðsluþætti – hvort sem þeir ætli að gera það sem er eldað eða ekki,“ segir hún.

Jóhanna getur ekki hugsað sér dásamlegri leið til að eyða fimmtudagskvöldunum en að leggja þau undir íslenska sjónvarpsmatreiðslu. Undir það tekur vöðvatröllið Jói Fel, sem byrjaði með tíundu þáttaröðina sína í síðustu viku. „Ég hlakka rosalega mikið til að sjá Jóhönnu,“ segir hann.

Hann er ekki sáttur við að þættirnir skuli lenda á sama degi og á sömu mínútunni, en lítur ekki svo á að hann sé kominn með samkeppni. „Mér finnst þetta ekki vera samkeppni því þættirnir eru ólíkir. Það er ekki hægt að bera þá saman,“ segir Jói.

Hann hvetur einnig fólk til að nýta plúsrásirnar og horfa á báða þætti, enda mikill áhugamaður um matreiðsluþætti sjálfur. „Ég ætla að gera það!“ segir hann. „Ég horfi bara á matreiðsluþætti og les bara matreiðslubækur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×