Körfubolti

Góðar fréttir fyrir Pál Axel

Páll Axel Vilbergsson
Páll Axel Vilbergsson Mynd/Vilhelm

Páll Axel Vilbergsson, leikmaður Grindavíkur, fékk góðar fréttir hjá læknum í morgun þegar hann fór í skoðun vegna hnémeiðsla sem héldu honum frá leik Grindavíkur og Snæfells í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta í gærkvöld.

Páll fann fyrir sársauka í hnénu á æfingu á föstudagskvöldið og þegar Vísir náði tali af honum í gær sagðist hann jafnvel óttast að þurfa að fara í aðgerð. Það hefði væntanlega þýtt að Páll hefði verið úr leik með Grindvíkingum í úrslitakeppninni.

Meiðsli hans voru hinsvegar ekki eins slæm og óttast var í fyrstu. "Menn héldu jafnvel að þetta væru liðbönd eða brjósk eða eitthvað slíkt en það var sem betur fer ekkert þannig," sagði Páll í samtali við Vísi í dag.

"Það sem er að hrjá mig er beinmar undir hnéskelinni. Ég fékk eitthvað högg sem orsakar sársauka þegar ég geri ákveðnar hreyfingar. Nú þarf ég bara að láta sjúkraþjálfarann svitna og fer í meðferð hjá honum tvisvar á dag," sagði Páll.

"Það er eiginlega undir mér sjálfum komið hvenær ég get farið að spila aftur. Ég reikna nú ekki með mér á morgun (í leik tvö í Stykkishólmi), en ég mun meta þetta dag frá degi. Það getur vel verið að ég láti sjá mig annað kvöld, en það þýðir lítið að spá í það fyrr en ég fer að láta reyna á þetta," sagði Páll Axel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×