Bakþankar

Sjálfhverfan

Fyrrverandi kennari minn í sagnfræði spurði eitt sinn að því hvað við nemendurnir myndum gera ef við fyndum óræka sönnun þess að Jón Sigurðsson hefði fæðst 16. júní. Uppfull sannleiksást, sem ekki enn var búið að berja úr okkur með fallvaltleika fræðanna, sögðumst við þegar í stað gera þetta opinbert. Gott ef einhverjir voru ekki farnir að baða sig í ljóma frægðarsólarinnar og einn og einn mátaði ímyndaðan hatt og lét smella í svipu eins og aðrir frægir grúskarar fornra fræða. Spurningunni hvað ætti þá að gera við þjóðhátíðardaginn var hins vegar erfiðara að svara.

Líklega hefði ekki verið mikið mál að hliðra þjóðhátíðardeginum til, eða jafnvel halda bara upp á lýðveldisstofnun en ekki afmæli löngu látins manns. Þessi spurning fékk okkur hins vegar til að íhuga þá staðreynd að ansi fátt er staðreynd þegar kemur að sögunni. Jú, vissulega getur fundist skjalfest heimild fyrir því að Jón hafi fæðst ákveðinn dag; hvað gerir þann dag að þjóðhátíðardegi er hins vegar erfiðara að festa fingur á.

því er þetta allt rifjað upp að það er öllum hollt að hafa það í huga að það er hlutverk atburða í skynjun fólks sem gerir þá merkilega. Og einmitt þess vegna höfum við haldið þjóðhátíðardaginn hátíðlegan til að halda á lofti því sem gerir okkur að þjóð. Eða öllu heldur því sem okkur finnst að eigi að gera okkur að þjóð. Furðu fátt hefur breyst í orðræðu þjóðhátíðanna frá seinni hluta 19. aldar. Á eftir munu landsmenn geta gengið að því vísu að talað verður um land, þjóð og tungu, menninguna og söguna. Þetta hafi mótað þjóðarþelið.

þess vegna hefur mörgum nýjum íbúum þessa skers reynst erfitt að samsama sig þjóðhátíðarræðum. Þar er haldið á lofti veruleika sem á lítið skylt við nútímann. Í sjálfhverfu hafa ræðumenn rifjað upp glæsta fortíð til að undirstrika glæsta nútíð og enn glæstari framtíð.

vonandi verður rof á þessari hefð í ár. Því hvað sem um innbyggjara þessa lands má segja þá hefur skortur á sjálfhverfu ekki plagað þá undanfarin ár. Og sú sjálfhverfa hefur fylgt okkur í ímynduðum sigrum okkar víða um lönd, leikið um tungu ráðamanna og viðskiptajöfra og fyllt samræður almennings. Við vorum öll æði.

kannski auðmýktin banki upp á í hátíðarræðum dagsins. Hún verður þá boðin velkomin.






×