Breska verslunarkeðjan House of Fraser hefur sent frá sér tilkynningu vegna orðróms um að keðjan uppfylli ekki lengur lánasamninga við viðskiptabanka sína. Segir þar að ekkert sé hæft í þessum orðrómi en hann hefur orðið til þess að margir telja yfirtöku Debenhams á keðjunni yfirvofandi.
House of Fraser er komið í umsjón skilanefndar Landsbankans en 34,9% hlutur í keðjunni var áður í eigu Baugs í gegnum Highland Group. Baugur átti raunar einnig umtalsverðan hlut í Debenhams þar til í lok mars s.l. að hann var seldur af HSBC bankanum með miklu tapi.
Í tilkynningunni segir að fjárhagsleg staða House of Fraser sé sterk. Reksturinn gangi umfram áætlanir og að reksturinn muni halda áfram að vaxa a.m.k. næstu þrjá mánuðina, að því er segir í umfjöllun RetailWeek um málið.
Fram kemur að í gær, 15. júní, hafi bankinn átt rúmlega 85 milljónir punda, eða tæpa 18 milljarða kr., í lausafé. Þar að auki ætti keðjan aðgang að 36 milljónum punda í viðbót.
„Þetta er nægilegt til að mæta öllum skuldbindingum í fyrirsjáanlegri framtíð," segir í tilkynningunni.
House of Fraser neitar því einnig að 62 af verslunum keðjunnar séu til sölu en fjölmiðlar í Bretlandi hafa gert að því skóna að Debenhams sé að kaupa þessar verslanir. Í tilkynningunni segir að keðjan vilji taka það skýrt fram að engar verslanir hennar séu til sölu.