Lífið

Skoppa fagnar barna-Eddu

ánægðar Skoppa og Skrítla fagna því að eiga aukinn möguleika á Edduverðlaunum.
ánægðar Skoppa og Skrítla fagna því að eiga aukinn möguleika á Edduverðlaunum.

„Ég er rosalega glöð með að sjá að þessi flokkur sé kominn. Ég held að allir megi hoppa hæð sína af gleði,“ segir leikkonan Linda Ásgeirsdóttir, Skoppa úr Skoppu og Skrítlu.

Barnaefni verður verðlaunað í fyrsta skipti á Eddunni á næsta ári. Flokkurinn nær bæði yfir efni í sjónvarpi og kvikmyndahúsum, en ljóst er að um auðugan garð verður að gresja. Sveppi, Skoppa og Skrítla frumsýndu myndir á árinu og barnaefni í sjónvarpi var einnig framleitt af krafti.

Aðspurð hvort Sveppi sé harðasti keppinautur Skoppu og Skrítlu hlær hún og segist ekki vita um það. „Þetta eru allt svo góðir vinir manns - félagar og meira þannig,“ segir hún.

Björn Brynjúlfur Björnsson, formaður íslensku kvikmynda- & sjónvarpsakademíunnar segir mikið framboð af barnaefni hafa orðið til þess að flokkurinn varð til. „Svo hafa menn auðvitað áhuga á að ýta undir gerð barnaefnis,“ segir hann. „Nú erum við að hjálpa til við það. Hingað til hefur ekki verið til nóg af efni til að hafa flokk. Ég held að það séu nálægt tíu verk sem koma til greina núna og það verða þrjú tilnefnd. Þetta er loksins orðinn alvöruflokkur.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.