Körfubolti

Friðrik áfram í Grindavík

Friðrik Ragnarsson
Friðrik Ragnarsson Mynd/E.Stefán

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur komist að samkomulagi við Friðrik Ragnarsson um að halda áfram að þjálfa karlalið félagsins á næsta tímabili.

Grindvíkingar voru sterkir undir stjórn Friðriks í vetur og voru einni sókn frá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn. "Við erum búnir að handsala það að ég taki næsta vetur," sagði Friðrik í samtali við Vísi.

Friðrik á von á að Grindavíkurliðið verði að mestu óbreytt næsta vetur. "Ég hugsa að við verðum með svipaða beinagrind og í fyrra. Brenton Birmingham og Arnar Freyr Jónsson verða áfram hjá okkur og ég hugsa að Páll Axel verði það líka. Eini maðurinn sem við missum er Páll Kristinsson," sagði Friðrik.

Nick Bradford fór á kostum með liði Grindavíkur á vordögum og Friðrik segir Grindvíkinga hafa hug á að fá hann aftur næsta vetur. Það sé þó háð því hvort leikmaðurinn fái tilboð annars staðar frá.

Friðrik hlakkar mikið til næsta vetrar með Grindavík. "Ég er mjög kátur að halda áfram og halda svipuðu liði, svo við reynum að spenna bogann aftur hátt. Ég hefði viljað enda þetta tímabil með titli en KR-liðið var auðvitað rosalega sterkt. Þessi úrslitasería var bara hágæðakörfubolti og vonandi getum við boðið upp á eitthvað svipað á næsta ári," sagði Friðrik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×