Körfubolti

Ómar Sævarsson í Grindavík

Mynd/Valli

Miðherjinn Ómar Sævarsson sem leikið hefur með ÍR undanfarin ár hefur samþykkt að ganga í raðir Grindavíkur.

"Það voru nokkur lið búin að hafa samband við mig og út frá því fór ég að hugsa um það hvort ég ætti að kýla á þetta. Mér þótti það spennandi verkefni að fara til Grindavíkur og reyna að vinna alla titla sem í boði eru. Ég held að það hljóti að vera takmarkið," sagði Ómar í samtali við Vísi.

Ómar skoraði 12,6 stig að meðaltali í leik í vetur sem leið og var þriðji frákastahæsti leikmaður Iceland Express deildarinnar með 11,5 fráköst að meðaltali í leik og varði auk þess um tvö skot að meðaltali í leik.

Hann vonast til að passa vel inn í leik Grindavíkur. "Ég er sæmilega léttur á fæti og ég þarf örugglega ekki að gera mikið af því að skora. Mitt hlutverk verður væntanlega að hirða fráköst og verja skot," sagði Ómar.

Ómar afrekaði að m.a. hirða 27 fráköst í einum og sama leiknum gegn Njarðvík í október í fyrra. Hann spilaði með Breiðablik leiktíðina 2001-02 en hefur allar götur síðan spilað með ÍR.

"Ég er auðvitað ÍR-ingur og ekkert annað og það er erfitt að fara úr Breiðholtinu. Þetta er fólk sem maður er búinn að vera í kring um síðan maður var níu ára. Ég held samt að allir hafi gott af smá breytingu," sagði Ómar.

Hjá Grindavík fær Ómar það verkefni að fylla skarð Páls Kristinssonar, en hann hefur gefið það út að líklega muni hann hætta í körfubolta. Þó þykir ekki ólíklegt að Páll fari aftur að spila með Njarðvíkurliðinu þar sem hann var áður en hann skipti yfir til Grindavíkur.

"Ég fæ líklega það verkefni að fylla skarð Páls og það verður ekki auðvelt. Mér hefur alltaf fundist Páll vera vanmetinn leikmaður," sagði Ómar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×