„Það er alltaf ánægjulegt að vinna, hvað þá í bikarnum á móti FH í tvíframlengdum leik. Maður er í þessu útaf svona leikjum en þreytan var auðvitað farin að segja til sín í lokin," sagði Björgvin Hólmgeirsson, stórskytta Hauka, eftir dramatískan sigur í Eimskips-bikarnum gegn FH í dag.
Haukar misstu FH-inga oft á tíðum á undan sér í leiknum en liðið kom alltaf til baka og var Björgvin ánægður með það.
„Reynslan og við hættum aldrei, það var aldrei í stöðunni að gefast upp. Við sýndum mikinn karakter. Við erum að lenda oft í því að vera fjórum til fimm mörkum undir en við náum alltaf að koma til baka og það er rosalega mikilvægt," sagði Björgvin yfir sig ánægður.

