Körfubolti

Teitur: Gefur okkur auka kraft

Elvar Geir Magnússon skrifar

„Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur eftir tvo tapleiki á undan. Við áttum möguleika í Grindavík um daginn en spiluðum illa gegn Tindastóli hérna heima," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn á Njarðvík í kvöld.

„Að vinna eina taplausa liðið í deildinni gefur okkur vonandi auka kraft fyrir framhaldið og meiri sjálfstraust."

Fyrirliðinn Fannar Helgason segist aðeins vera í 80% standi en var þrátt fyrir það liðinu gríðarlega mikilvægur í kvöld. „Hann var alveg magnaður í fyrri hálfleik og mér finnst orkan í honum smita út frá sér í aðra leikmenn. Maður sá menn aftur fleygja sér á eftir boltum og hirða þessi erfiðu fráköst. Það hefur aðeins vantað að undanförnu en fyrirliðinn kemur með þetta til baka og það glansar af honum leikgleðin," sagði Teitur.

„Við eigum KR í næsta leik og nú förum við í þann leik með þá trú að við getum tekið þann leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×