Friðlýsum Ísland Sverrir Jakobsson skrifar 24. febrúar 2009 06:00 Fyrir viku bárust alvarleg tíðindi af árekstri bresks og fransks kjarnorkukafbáts á Atlantshafi í febrúarbyrjun. Betur fór þar en á horfðist, en fréttirnar vekja mann óneitanlega til umhugsunar um áhrif þess sem skaðlegt kjarnorkuslys á höfunum gæti haft fyrir Ísland og Íslendinga. Auk beinna skaðlegra umhverfisáhrifa sem slíkt slys hefði í för með sér, mætti búast við því að sala og neysla á sjávarafurðum yrði fyrir áfalli með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðarhag sem síst má við miklum skakkaföllum. Þetta er raunveruleg ógn sem vofir yfir Íslendingum. Við þessari ógn er hægt að bregðast og hún var m.a. forsenda þess að Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og fimm aðrir þingmenn úr Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Kvennalista lögðu veturinn 1995-1996 fram frumvarp til laga „um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja". Í 1. grein þessa frumvarps stendur: „Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs." Þáverandi utanríkisráðherra lýsti yfir harðri andstöðu við þetta lagafrumvarp og það hefur aldrei fengið málefnalega umfjöllun á Alþingi síðan þrátt fyrir að Steingrímur og fleiri þingmenn hafi reynt að taka það upp. Reyndar er saga þingmálsins enn þá eldri þar sem svipuð frumvörp hafa verið lögð fyrir Alþingi síðan veturinn 1986-1987 og raunar hafa þingsályktunartillögur um þetta verið á dagskrá frá 1976. Steingrímur J. Sigfússon hefur verið fyrsti flutningsmaður þessa máls í níu skipti í rúm 20 ár og meðflutningsmenn komið úr öllum flokkum. Nú seinast var frumvarpið lagt fyrir á Alþingi í janúar af hálfu þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki. Síðan þá hefur margt breyst, komin er vinstristjórn í landinu og möguleikar á greiðari framgangi þessa frumvarps. Meginorsökin að íslensk stjórnvöld vildu ekki styðja jafn þarft og sjálfsagt mál var líklega sú að þau voru föst í fjötrum kalda stríðsins og vildu ekki aðhafast neitt sem kynni að styggja verndara í Washington. Með sömu rökum ákváðu íslensk stjórnvöld að styðja við bakið á hernámsliðinu sem hefur nú verið fast í átta ár í Afganistan og þessi rök voru rifjuð upp þegar stuðningur við innrásina í Írak var ákveðinn í einkasamtölum án þess að leitað væri eftir samþykki. Þá var m.a. vitnað til þess að ekki mætti styggja ráðamenn í Washington því að annars myndi Bandaríkjaher yfirgefa landið. Núna er herinn farinn og haldleysi þessara „bandamannaraka" hefur ítrekað verið afhjúpað, nú seinast þegar seðlabankastjórar reyndu að betla gjaldeyrislán frá Washington í fyrra. Raunverulegt öryggi Íslendinga snýst hins vegar og hefur alltaf snúist um önnur mál og brýnni en stuðning við nýlenduævintýri Bandaríkjanna víða um hnöttinn. Áþreifanleg hætta stafar af umferð kjarnorkjuknúinna farartækja í kringum landið. Hér geta orðið slys af manna völdum, ef t.d. kjarnorkukafbátar sökkva í íslenskri efnahagslögsögu. Þess vegna er það ábyrgðarhluti að ríkisstjórn Íslands hafi um árabil staðið gegn öllum tilraunum til að friðlýsa íslenska efnahagslögsögu fyrir kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum. Þar var eingöngu litið til hagsmuna setuliðsins á Miðnesheiði. Núna eru þeir Össur og Steingrímur komnir í minnihlutastjórn og lag að breyta þeirri stefnu með stuðningi Framsóknarflokksins. En hvaða rök hefur nokkur stjórnmálaflokkur fyrir því að standa gegn friðarlýsingu Íslands? Samtök hernaðarandstæðinga beittu sér gegn heræfingum Rússa 2006 m.a. með þeim rökum að kjarnorkuknúin herskip tækju þátt í þeim. Vegna mótmæla samtakanna var hætt við heræfingarnar. Þá hafa samtökin beitt sér gegn kjarnorkustefnu Atlantshafsbandalagsins með því að höfða til þess stjórnsýslustigs sem stendur almenningi á Íslandi næst, sveitarstjórna. Nú búa 90% Íslendinga í friðlýstum sveitarfélögum. Þetta undirstrikar þann almenna vilja sem ríkir meðal þjóðarinnar fyrir því að slík vopn eigi ekki og muni aldrei eiga erindi til Íslands. Enginn vafi er á því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styður friðlýsingu íslenskrar lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum. Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn hlusti á þjóðina og samþykki hið einfalda en gagnmerka frumvarp um friðlýsingu Íslands sem liggur núna fyrir Alþingi? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun
Fyrir viku bárust alvarleg tíðindi af árekstri bresks og fransks kjarnorkukafbáts á Atlantshafi í febrúarbyrjun. Betur fór þar en á horfðist, en fréttirnar vekja mann óneitanlega til umhugsunar um áhrif þess sem skaðlegt kjarnorkuslys á höfunum gæti haft fyrir Ísland og Íslendinga. Auk beinna skaðlegra umhverfisáhrifa sem slíkt slys hefði í för með sér, mætti búast við því að sala og neysla á sjávarafurðum yrði fyrir áfalli með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðarhag sem síst má við miklum skakkaföllum. Þetta er raunveruleg ógn sem vofir yfir Íslendingum. Við þessari ógn er hægt að bregðast og hún var m.a. forsenda þess að Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og fimm aðrir þingmenn úr Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki og Kvennalista lögðu veturinn 1995-1996 fram frumvarp til laga „um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja". Í 1. grein þessa frumvarps stendur: „Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs." Þáverandi utanríkisráðherra lýsti yfir harðri andstöðu við þetta lagafrumvarp og það hefur aldrei fengið málefnalega umfjöllun á Alþingi síðan þrátt fyrir að Steingrímur og fleiri þingmenn hafi reynt að taka það upp. Reyndar er saga þingmálsins enn þá eldri þar sem svipuð frumvörp hafa verið lögð fyrir Alþingi síðan veturinn 1986-1987 og raunar hafa þingsályktunartillögur um þetta verið á dagskrá frá 1976. Steingrímur J. Sigfússon hefur verið fyrsti flutningsmaður þessa máls í níu skipti í rúm 20 ár og meðflutningsmenn komið úr öllum flokkum. Nú seinast var frumvarpið lagt fyrir á Alþingi í janúar af hálfu þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki. Síðan þá hefur margt breyst, komin er vinstristjórn í landinu og möguleikar á greiðari framgangi þessa frumvarps. Meginorsökin að íslensk stjórnvöld vildu ekki styðja jafn þarft og sjálfsagt mál var líklega sú að þau voru föst í fjötrum kalda stríðsins og vildu ekki aðhafast neitt sem kynni að styggja verndara í Washington. Með sömu rökum ákváðu íslensk stjórnvöld að styðja við bakið á hernámsliðinu sem hefur nú verið fast í átta ár í Afganistan og þessi rök voru rifjuð upp þegar stuðningur við innrásina í Írak var ákveðinn í einkasamtölum án þess að leitað væri eftir samþykki. Þá var m.a. vitnað til þess að ekki mætti styggja ráðamenn í Washington því að annars myndi Bandaríkjaher yfirgefa landið. Núna er herinn farinn og haldleysi þessara „bandamannaraka" hefur ítrekað verið afhjúpað, nú seinast þegar seðlabankastjórar reyndu að betla gjaldeyrislán frá Washington í fyrra. Raunverulegt öryggi Íslendinga snýst hins vegar og hefur alltaf snúist um önnur mál og brýnni en stuðning við nýlenduævintýri Bandaríkjanna víða um hnöttinn. Áþreifanleg hætta stafar af umferð kjarnorkjuknúinna farartækja í kringum landið. Hér geta orðið slys af manna völdum, ef t.d. kjarnorkukafbátar sökkva í íslenskri efnahagslögsögu. Þess vegna er það ábyrgðarhluti að ríkisstjórn Íslands hafi um árabil staðið gegn öllum tilraunum til að friðlýsa íslenska efnahagslögsögu fyrir kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum. Þar var eingöngu litið til hagsmuna setuliðsins á Miðnesheiði. Núna eru þeir Össur og Steingrímur komnir í minnihlutastjórn og lag að breyta þeirri stefnu með stuðningi Framsóknarflokksins. En hvaða rök hefur nokkur stjórnmálaflokkur fyrir því að standa gegn friðarlýsingu Íslands? Samtök hernaðarandstæðinga beittu sér gegn heræfingum Rússa 2006 m.a. með þeim rökum að kjarnorkuknúin herskip tækju þátt í þeim. Vegna mótmæla samtakanna var hætt við heræfingarnar. Þá hafa samtökin beitt sér gegn kjarnorkustefnu Atlantshafsbandalagsins með því að höfða til þess stjórnsýslustigs sem stendur almenningi á Íslandi næst, sveitarstjórna. Nú búa 90% Íslendinga í friðlýstum sveitarfélögum. Þetta undirstrikar þann almenna vilja sem ríkir meðal þjóðarinnar fyrir því að slík vopn eigi ekki og muni aldrei eiga erindi til Íslands. Enginn vafi er á því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar styður friðlýsingu íslenskrar lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum. Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn hlusti á þjóðina og samþykki hið einfalda en gagnmerka frumvarp um friðlýsingu Íslands sem liggur núna fyrir Alþingi?