Handbolti

Jónatan: Hefði verið neyðarlegt að tapa fyrir þessu liði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jónatan Magnússon.
Jónatan Magnússon.

Það var þungu fargi létt af Akureyringum í kvöld enda fögnuðu leikmenn liðsins ógurlega eftir sigurinn gegn Gróttu.

Miðjumanninum Jónatani Magnússyni var létt eins og öðrum enda fyrsti sigurinn í húsi.

Akureyringar voru samt ekki góðir en Vísir spurði Jónatan að því hvort það hefði ekki orðið neyðarlegt að tapa fyrir eins þéttvöxnu liði og Grótta er?

„Jú, því er ekki að neita að það hefði verið neyðarlegt. Það er líka dapurt að skora ekki fleiri mörk á þá," sagði Jónatan sem vildi samt hrósa Gróttuliðinu.

„Þeir eru að spila mjög skynsamlega og vinna vel úr sínu. Eru ekki að henda frá sér boltanum í tíma og ótíma."

Jónatan sagði að það hefði verið að duga eða drepast fyrir hans menn í kvöld.

„Við ætluðum að vinna þennan leik og Stjörnuna næst. Við höfum æft vel núna og menn að koma til eftir veikindi og meiðsli," sagði Jónatan og bætti við að liðið ætli sér stóra hluti þrátt fyrir brösuga byrjun.

„Við eigum möguleika á að gera einhverja hluti í vetur enda með hörkulið. Þessi sigur mun kveikja í okkur og við erum að styrkjast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×