Lífið

Æfir módel fitness í Danmörku

Fjóla Björk æfir sex sinnum í viku og þjálfar á líkamsræktarstöðinni City fitness í Sönderborg meðfram námi í fatahönnun.
Mynd/Jónas Hallgrímsson
Fjóla Björk æfir sex sinnum í viku og þjálfar á líkamsræktarstöðinni City fitness í Sönderborg meðfram námi í fatahönnun. Mynd/Jónas Hallgrímsson

„Þegar ég flutti út var ég ákveðin í að fá vinnu í líkamsrækt til að geta haldið þessu áfram. Eins og íslenska krónan er, er erfitt að búa erlendis og vera í svona dýru sporti eins og fitness,“ segir Fjóla Björk Gunnlaugsdóttir, nítján ára.

Fjóla flutti til Sönderborg í Danmörku í ágúst þar sem hún nemur fatahönnun við Southwest business academy, en hún hefur átt góðu gengi að fagna í módel fitness hér á landi og lenti síðast í 2. sæti á bikarmóti IFBB núna í nóvember.

Síðustu helgi birtist viðtal við Fjólu í tímaritinu Jydske Vestkysten, en hún starfar nú á líkamsræktarstöðinni City fitness og æfir sex sinnum í viku. „Ég var svo heppin að fá vinnu við að kenna Push, sem er svipað æfingakerfi og Body pump, og leysa af í spinning. Henrik Hansen einkaþjálfari er svo búinn að vera að þjálfa mig, en hann þjálfaði til dæmis í hinu þekkta Gold‘s gym í Los Angeles,“ útskýrir Fjóla. Hún segir fáar stelpur stunda lyftingar í Sönderborg.

„Ég hafði heyrt að það væri ekki mikið um fitness hérna og hér eru mjög fáar stelpur að lyfta. Þá áttaði ég mig á hvað fitness er miklu stærra á Íslandi,“ segir Fjóla, en furðar sig á að ekki séu tekin lyfjapróf hér á landi.

„Ég æfi algjörlega náttúruleg og nota engin ólögleg efni. Stíft matarræði, vítamín, kreatín og glútamín er það sem virkar og fer vel með líkamann. Það er óásættanlegt að keppendur eru aldrei látnir taka lyfjapróf á Íslandi. Að sjálfsögðu eiga þrjú efstu sætin í keppnum að vera skyldug til þess eins og tíðkast úti.“

Aðspurð segist hún stefna á mót í módel fitness í Kanada á næsta ári. „Mig langar rosalega að fara og keppa en það er mjög dýrt svo ég verð að byrja að finna mér styrktaraðila,“ útskýrir hún og viðurkennir að draumurinn sé að starfa við sportið í framtíðinni, en Fjóla er einnig með diplóma sem tískustílisti.

„Draumurinn væri að vera í módel fitness og starfa sem þjálfari í bland við stílistann og hönnunina. Jafnvel að hanna föt á fólk í fitness og íþróttaföt,“ segir Fjóla.

- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.