Lífið

Friðrik segir Fíladelfíu-söfnuðinn fara með rangt mál

Friðrik Ómar
Friðrik Ómar

Friðrik Ómar Hjörleifsson hefur sent Fréttablaðinu yfirlýsingu vegna deilna hans við Fíladelfíu-söfnuðinn. Þar kemur fram að hann, ásamt tónlistarstjórum safnaðarins og forstöðumanni, hafi reynt að lægja öldurnar og umræðuna sem varð í þjóðfélaginu á fundi í síðustu viku og þeir hafi ætlað að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Ekki hafi hins vegar tekist samkomulag um orðalag. Hins vegar er Friðrik ánægður með að heyra að samkynhneigðir séu velkomnir í Fíladelfíu-söfnuðinn eins og kom fram í yfirlýsingu Fíladelfíu sem send var fjölmiðlum í síðustu viku. „Það þykja mér góð tíðindi og fagna ég þeim."

Friðrik segir það jafnframt rangt sem fram kemur í yfirlýsingu Fíladelfíu-safnaðarins að aldrei hafi borist beiðni um að hann kæmi fram á tónleikunum. „Sannleikurinn er sá að ég hef haft samskipti við tónlistarstjóra safnaðarins varðandi tónlistarflutning með kórnum en þau sjá um skipulagningu tónleikanna. Árið 2007 ræddi ég við tónlistarstjóra í tengslum við að ég kæmi fram með kór safnaðarins. Á þeim tíma var mér tjáð af tónlistarstjórunum að mín samkynhneigð „gæti farið fyrir brjóstið á fólki innan safnaðarins, hneykslað einhverja" og þess vegna gæti ekki af því orðið. […] Þetta hef ég bæði munnlegt og skriflegt," segir Friðrik í yfirlýsingunni.

Friðrik vísar því á bug að hann hafi komið fram með þetta mál sökum einhverrar athyglissýki. „Ég harma það mjög að samkynhneigð geti farið fyrir brjóstið á sumu fólki eins og tónlistarstjórar kirkjunnar tjáðu mér á sínum tíma. Ég túlka yfirlýsingu Hvítasunnukirkjunnar þannig að með henni hafi orðið viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum. Þetta er greinleg breyting miðað við reynslu mína af kirkjunni sem ég fagna," segir Friðrik.

freyrgigja@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.