Sport

19 ára dönsk tennisskona komin í úrslitin á opna bandaríska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caroline Wozniacki
Caroline Wozniacki Mynd/AFP
Caroline Wozniacki tryggði sér í nótt sæti í úrslitaleiknum á opna bandaríska meistaramótinu í tennis eftir öruggan sigur á jafnöldru sinni frá Belgíu, Yanina Wickmayer, 6-3 og 6-3 í undanúrslitaleik. Wozniacki er fyrsti danski tennisspilarinn sem kemst í úrslitin á opna bandaríska mótinu en hún mun þar mæta Kim Clijsters frá Belgíu.

Caroline Wozniacki er kominn upp í sjötta sæti á heimslistanum með því að komast alla leið í úrslitaleikinn og kemst upp í fjórða sæti vinni hún Clijsters í úrslitaleiknum sem fram fer í nótt. Árangur Wozniacki hefur vakið mikla athygli í Danmörku og eru allir danskir miðlar uppfullir af fréttum af tennisstjörnu sinni sem er að flestra mati talin vera fremsti íþróttamaður Dana í dag.

„Ég er komin í úrslit á bandaríska meistaramótinu. Ég get ekki lýst þessu með orðum því ég er svo ánægð. Það er draumur að rætast að fá að spila til úrslita á risamóti og ég hef engu að tapa í úrslitaleiknum," sagði Wozniacki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×