Viðskipti innlent

Vissu ekki af sölu til dótturfélags Baugs

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Karl Georg Sigurbjörnsson við þingfestingu málsins.
Karl Georg Sigurbjörnsson við þingfestingu málsins.
Lögmaður sem ákærður er fyrir fjársvik í tengslum við sölu á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Hafnafjarðar neitaði sök í Héraðsdómi í dag. Stofnfjáreigendurnir segjast ekki hafa vitað að þeir voru að selja hluti sína til dótturfélags Baugs en félagið hagnaðist um 40 milljónir á hverja tvo hluta.

Aðalmeðferð málsins hófst í héraðsdómi í dag. Málsvextir eru að Karl Georg Sigurbjörnsson ásamt Sigurði G. Guðjónssyni höfðu milligöngu um að kaupa stofnfjárhluti í Sparisjóði Hafnarfjarðar árið 2006 fyrir A Holding, dótturfélag Baugs. A holding SA er staðsett í Lúxemborg og fóru kaupin í gegnum útibú þess í Sviss.

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, var einn af stofnfjáreigendum í sparisjóðnum og hafði milligöngu um að fjórir stofnfjáreigendur seldu bréfin sín fyrir 50 milljónir króna í gegnum Karl Georg. Dótturfélag Baugs seldi svo bréfin til Sparisjóðs vélstjóra og nokkurra fagfjárfesta, m.a. Fons og Vatnaskila fyrir 90 milljónir hvern hluta.

Fimmeningarnir telja að Karl hafi hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar um hámarksverð sem hægt var að fá fyrir stofnfjárbréfin og er Karl ákærður fyrir fjársvik. Í framburði fimmeninganna í dag kom fram að ekkert þeirra vissi að þau væru að selja A holding bréfin sín. Karl Georg neitar sök og segist ekki hafa komið að verðmyndun á bréfunum heldur hafi hann sem lögmaður haft milligöngu milli seljendanna og A-holding. Aðalmeðferð málsins lýkur á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×