Stærsti einstaki kröfuhafinn í þrotabú Landsbankans, að Icesave frátöldu, er þýski stórbankinn Deutsche Bank. Samtals gerir Deutsche Bank og dótturfélög hans kröfur upp á 403 milljarða kr. í búið samkvæmt kröfuhafalista bankans.
Raunar voru þýskir bankar mjög viljugir til að lána Landabankanum því nefna má að Deka bankinn gerir kröfur upp á um 70 milljarða kr.
Helstu dótturfélög Landsbankans erlendis gera einnig stórar kröfur í þrotabúið. Þannig gerir Landsbankinn í Lúxemborg kröfu upp á tæplega 170 milljarða kr. Heritable bankinn í London gerir kröfu upp á um 137 milljarða kr.
Útibú Landsbankans á Guernsey gerir hinsvegar kröfu upp á 8,7 milljarða kr. Það er ekki eina krafan frá þessari eyju því á kröfuhafalistanum má finna keiluklúbbinn Guernsey Bowling Club sem gerir kröfu upp á 2,6 milljónir kr. í þrotabúið.