Viðskipti innlent

Fengu tugmilljarða lán frá Kaupþingi

Tchenguiz bræður fengu tugi milljarða lánaða frá Kaupþingi hér á landi, í Bretlandi og Lúxemborg mánuðina fyrir bankahrunið. Veðin fyrir lánunum eru að mestum hluta í breskum fasteignafélögum en breskur fasteignamarkaður er gott sem hruninn. Lánin voru veitt á sama tíma og nær ógjörningur var fyrir íslensk fyrirtæki að fá fyrirgreiðslu í íslenskum bönkum.

Bræðurnir Vincent og Robert Tchenguiz hafa verið í umfangsmiklum viðskiptum við Kaupþing. Robert á sæti í stjórn Existu en hann eignaðist um 5% hlut í félaginu í skiptum fyrir hlut hans í finnska félaginu Sampo. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings. Bræðurnir hafa aðallega fjárfest í fasteignum, auk þess sem Robert hefur átt hlut í kráarkeðjunni Mitchells &Butler og Sainsbury . Fréttir af tapi þeirra bræðra í fjármálakreppunni hafa verið plássfrekar í erlendum blöðum að undanförnu og fóru reyndar að berast snemma á síðasta ári.

Heimildir fréttastofu herma að félög tengd þeim bræðrum hafi fengið yfir tugi milljarða að láni frá Kaupþingi hér á landi, Singer & Friedlander í Bretlandi og Kaupþingi í Lúxemborg frá síðasta sumri og fram að bankahruni. Síðasta lánið var veitt í byrjun október, nokkrum dögum fyrir bankahrun. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru verið að yfirfara veðin fyrir þessum lánum en þau eru að mestum hluta í breskum fasteignafélögum. Veðin hafa rýrnað umtalsvert í verði á síðustu mánuðum en breskur fasteignamarkaður er svo til hruninn. Lánin voru veitt á sama tíma og íslensk fyrirtæki fengu litla sem enga fyrirgreiðslu í íslenskum bönkum og lánsfjármarkaðir voru að lokast. Svo virðist sem þeir bræður hafi haft greiðari aðgang en aðrir að lánsfé innan bankans og eru í dag meðal stærstu skuldurum Kaupþings. Heimildir fréttastofu herma einnig að hluti þessara lána séu í skýrslu Price Waterhouse Coopers sem nú liggur inni hjá Fjármálaeftirlitinu. Þá hafði Efnahagsbrotadeild Ríkisskattstjóra einnig borist ábending um málið sem var send áfram til Fjármálaeftirlitsins. Heimildir fréttastofu herma einnig að verið sé að skoða hvort að þeir Tchenguiz bræður séu tengdir öðrum félögum sem einnig fengu mikla fyrirgreiðslu hjá Kaupþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×