Körfubolti

Gunnar Einarsson: Þetta verður stríð í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnar Einarsson mun spila með Keflavík í kvöld.
Gunnar Einarsson mun spila með Keflavík í kvöld. Mynd/Vilhelm

„Við erum með bakið upp við vegg og stolt okkar er líka undir. KR-ingar munu ekki labba yfir okkur í kvöld. Það er alveg klárt mál. Þetta verður stríð í kvöld," sagði Keflvíkingurinn Gunnar Einarsson ákveðinn við Vísi áðan.

Keflvíkingar sækja KR heim í DHL-höllina í kvöld klukkan 19.15. Þetta er þriðja viðureign liðanna í undanúrslitum en KR leiðir 2-0. KR kemst því í úrslitarimmuna með heimasigri í kvöld.

„Við þekkjum þessa stöðu frá því í fyrra gegn ÍR. Við unnum okkur út úr því. Það var samt algjör óþarfi að gera þetta aftur. Við vitum vel að það hefur enginn trú á því að við klórum okkur út úr þessu nema við sjálfir. Við komum okkur í þessa stöðu og það hjálpar okkur enginn út úr henni nema við sjálfir," sagði Gunnar sem tók sér frí frá vinnu í dag til að vera í sem bestu standi í kvöld.

Hann gat lítið leikið í síðasta leik eftir að hafa tognað á innanverðu læri. Hann segist vera orðinn betri í lærinu og stefnir á að spila í kvöld.

„Þetta heldur vonandi. Ef ekki þá verða strákarnir bara að klára þetta án mín og ég hef fulla trú á að þeir geti það," sagði Gunnar sem telur komin tími á að liðið sýni sitt rétta andlit gegn KR.

„Við höfum ekki hitt á góðan leik gegn KR. Við munum mæta brjálaðir til leiks í kvöld og það er kominn tími á það. Við eigum mikið inni og það sjá allir. Það hefur vantað meiri vilja og grimmd í okkur en það verður nóg af slíku í kvöld," sagði Gunnar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×