Handbolti

Rakel Dögg: Þetta eru mikilvægir leikir

Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður Kolding, er bjartsýn fyrir hönd íslenska kvennalandsliðsins sem í kvöld spilar fyrsta æfingaleik sinn af þremur á jafnmörgum dögum gegn Svisslendingum.

Fyrsti leikur liðanna er í Framhúsinu í kvöld klukkan 19:30, en leikirnir eru liður í undirbúningi fyrir forkeppni EM næsta haust. Íslenska liðið spilar líka tvo æfingaleiki gegn Portúgal ytra um mánaðamótin.

"Þetta eru mikilvægir leikir af því þetta er auðvitað lokaundirbúningur fyrir forkeppnina í október, þannig að þetta er kannski síðasti séns til að púsla okkur saman og fínpússa liðið fyrir það verkefni," sagði Rakel, sem er ánægð með gang mála hjá landsliðinu.

"Ég er rosalega ánægð með ástandið á liðinu núna. Það er góð blanda hér af ungum og eldri og reyndari leikmönnum í hópnum og mér finnst þetta allt vera að koma hjá okkur. Það hefur gengið vel á æfingum og ég er bjartsýn á framhaldið."

En hvernig metur Rakel möguleika íslenska liðsins í forkeppninni í október?

"Við vorum að mínu mati nokkuð heppnar með dráttinn í riðlana. Frakkar og Austurríki eru sterkari þjóðir en við, en þessi lið hafa verið frekar á niðurleið en uppleið síðustu ár. Svo erum við með Finnland og Bretland sem við eigum að klára. Ég held að við eigum alveg möguleika á móti Frökkum og Austurríkismönnum, sérstaklega á heimavelli," sagði Rakel.

Leikir landsliðsins gegn Sviss verða sem hér segir.

Mánudagur 18. maí kl. 19.30 Framhús Reykjavík

Þriðjudagur 19. maí kl. 19.30 Íþróttahúsið á Selfossi

Miðvikudagur 20.maí kl. 18.00 Íþróttahúsið Austurberg  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×