Viðskipti erlent

Umræður um Icesave á hollenska þinginu

Utandagskrárumræður um Icesave standa nú yfir í hollenska þinginu en hópur af fyrrum innistæðueigendum Icesave hefur krafist þess að fá innistæður sínar greiddar að fullu. Þessi hópur segir að handvömm fjármálaeftirlita Íslands og Hollands eigi ekki að bitna á þeim.

Í frétt frá fréttastofunni Trouw um málið segir að þessi hópur þrýsti nú mikið á hollenska þingmenn að þeir geri eitthvað í málinu. Um er að ræða 200 einstaklinga sem áttu meir en 100.000 evrur hver inn á Icesave reikningum sínum þegar Landsbankinn komst í þrot s.l. haust.

Eins og kunnugt er hafa stjórnvöld í Hollandi ákveðið að ábyrgjast allar innistæður á Icesave upp að 100.000 evrum. Íslendingar eiga svo að borga rúmlega 20.000 evrur að hámarki af hverri innistæðu.

Umræðan á hollenska þinginu snýst m.a. um hvort seðlabanki landsins hefði ekki átt að grípa inn í uppgang Icesave í Hollandi þegar ljóst var í hvert stefndi með Landsbankann.

Einnig er rætt um orsakir þess að fjármálaeftirlit beggja landanna gripu ekki til viðeigandi ráðstafana þótt þeim hefði átt að vera dagljóst í hvaða óefni stefndi með Icesave.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×