Lífið

Hlakkar til að fara á hestbak hjá pabba

Harpa Einarsdóttir hefur dvalið í Atlanta síðastliðið ár og starfaði þar sem hönnuður hjá CCP. fréttablaðið/stefán
Harpa Einarsdóttir hefur dvalið í Atlanta síðastliðið ár og starfaði þar sem hönnuður hjá CCP. fréttablaðið/stefán

„Maður hefur auðvitað saknað vina sinna og fjölskyldu hræðilega mikið og ég get ekki beðið eftir að komast á hestbak hjá pabba í sveitinni," segir hönnuðurinn Harpa Einarsdóttir.

Harpa hefur verið búsett í Atlanta undanfarið ár þar sem hún starfar sem hönnuður fyrir tölvuleikja­fyrirtækið CCP. Hún er á leið heim til Íslands um jólin þar sem önnur og ný verkefni bíða hennar.

Harpa starfaði sem yfirhönnuður í tísku- og persónusköpun við hinn nýja tölvuleik World of Darkness sem CCP hannar og segir hún vinnuna hafa verið mjög krefjandi. „Atlanta er í Suðurríkjunum og kannski ekki skemmtilegasti staðurinn til að vera á ef maður starfar innan tískubransans. Hér er þó mikil tónlistar- og myndlistarmenning sem ég náði ekki að njóta eins mikið og ég hefði viljað sökum anna," segir Harpa og bætir við að það hafi gert henni gott að komast aðeins frá Íslandi. „Það víkkar sjóndeildarhringinn að komast svona í burtu og fyrir vikið kann maður betur að meta það sem Ísland hefur upp á að bjóða."

Harpa segir eina af ástæðunum fyrir heimflutningunum vera þá að sonur hennar átti erfitt með að aðlagast breyttum aðstæðum. „Það var erfitt að vinna fulla vinnu og vera einstæð móðir án fjölskyldunetsins sem maður hafði heima. Svo var heldur ekki eins ódýrt að búa í Ameríku og maður hélt og mér þótti erfiðara að ná endum saman en heima."

Harpa hefur mörg járn í eldinum og hefur í nógu að snúast við heimkomuna og hefur meðal annars verið beðin um að hanna tvær fatalínur auk þess sem hún mun sinna myndlistinni áfram. -sm










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.