Körfubolti

Stjarnan á toppinn í Iceland-Express deildinni

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Justin Shouse fór fyrir liði Stjörnunnar í kvöld.
Justin Shouse fór fyrir liði Stjörnunnar í kvöld. Fréttablaðið
Stjarnan tyllti sér á topp Iceland-Express deildar karla í körfubolta í kvöld með góðum sigri á Hamarsmönnum.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Stjarnan var 36-35 yfir í hálfleik og sami munur hélst fyrir lokaleikhlutann. Þar var Stjarnan alltaf skrefinu á undan en Hamarsmenn voru aldrei langt undan.

Lokatölur voru 85-76 fyrir Stjörnunni sem er þar með komið á topp deildarinnar. Liðið er með jafn mörg stig og Njarðvík og KR en er með betri innbyrðis viðureignir þar sem Garðbæingar hafa unnið báða leiki sína á móti hinum toppliðunum.

Justin Shouse var atkvæðamikill að venju fyrir Stjörnuna í kvöld, hann skoraði 28 stig og tók 11 fráköst. Jovan Zdravevski skoraði 23 stig og tók 7 fráköst og Fannar Helgason skoraði tólf stig og hirti 11 fráköst.

Andre Dabney skoraði 30 stig fyrir Hamar en Marvin Valdimarsson var næst stigahæstur með 27 stig.

Grindavík vann öruggan sigur á FSu á útivelli, 60-98. Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá Grindavík með 26 stig og Darrel Flake skoraði 17. Hjá FSu skoraði Dominik Baker mest, 19 stig og Aleksas Zimnickas 18.

Þá vann ÍR heimasigur á Tindastóli, 97-93. Framlengja þurfti leikinn þar sem staðan var jöfn, 87-87, eftir venjulegan leiktíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×