Íslenski boltinn

Sigurbjörn: Verður varla sætara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurbjörn Hreiðarsson, lengst til hægri, í leik með Val.
Sigurbjörn Hreiðarsson, lengst til hægri, í leik með Val. Mynd/Stefán
Sigurbjörn Örn Hreiðarsson var hæstánægður með sigur sinna manna á KA í kvöld en hann skoraði sigurmark leiksins undir lok leiksins sem þurfti að framlengja.

Valur hefur þar með tryggt sér sæti í fjórðungsúrslitum VISA-bikarkeppni karla en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2-2.

„Þetta verður varla sætara," sagði Sigurbjörn um sigurinn og sigurmarkið sitt sem kom á 117. mínútu. „Þetta hefur verið erfitt hjá okkur að undanförnu og sigurinn því afar kærkominn. Við þurftum þó aldeilis að hafa fyrir hlutunum í dag enda KA-menn mjög góðir."

„En við ætluðum okkur ekkert annað en sigur í þessum leik. Það var því svekkjandi að fá þetta ódýra jöfnunarmark á okkur og djöfullegt að hafa ekki náð að fylgja eftir seinna markinu okkar. Það var óþarfi að missa leikinn í framlengingu og óhætt að segja að ég sé alveg búinn á því núna."

Atli Eðvaldsson tók við þjálfun Vals í gær og stýrði því liðinu á einni æfingu. „Mér fannst hann koma mjög vel inn í öll mál hjá okkur og náði að setja mark sitt á liðið - enda mikill fagmaður."

Hann neitar því ekki að Valur á mestan möguleika á því að vinna titil í sumar í bikarkeppninni. „Það er vissulega langsótt að reyna að ná FH í deildinni. Nú eru möguleikar okkar í bikarnum einn á móti átta og eru það talsvert betri líkur en í deildinni," sagði hann í gamansömum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×