Fastir pennar

Hvað ætla Vinstri græn að gera?

Svanborg Sigmarsdóttir skrifar

Þetta er undarleg albanínuumræða gagnvart Vinstri grænum," sagði Arnbjörg Sveinsdóttir á Alþingi í gær, þegar Samfylkingin beindi þeirri spurningu að Sjálfstæðisflokknum hver stefna þeirra gagnvart Evrópusambandinu væri, og hvort breytinga á þeirri stefnu væri að vænta á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Það er mjög eðlilegt að núverandi stjórnarflokkar lýsi stefnu sinni gagnvart Evrópusambandinu, ekki síst þar sem líklegt þykir að þessir flokkar muni halda samstarfinu áfram eftir næstu kosningar, fái þeir til þess brautargengi. Stefna Samfylkingar er skýr, flokkurinn vill sækja um. Stefna Vinstri grænna er ekki eins skýr.

Samkvæmt samþykktri stefnu vill flokkurinn ekki aðild, en miðað við ummæli þingmanna, meðal annars Ögmundar Jónassonar, um að ef sækja eigi um aðild sé það heppilegast að Vinstri græn eigi aðild að samningaborðinu. Vinstri græn verða að skýra hver þeirra stefna er í dag gagnvart ESB. Þeirra kjósendur eiga það skilið. Kjósendur Samfylkingar eiga einnig skilið að fá að vita hvort stjórn þessara flokka muni þoka aðild eitthvað áfram.

Sjálfstæðisþingmenn hafa að undanförnu gert það að umtalsefni að aðild skipti engu máli nú, þar sem evran verði ekki möguleiki í mörg ár, en evran virðist eini kosturinn við aðild sem sjálfstæðismenn reka augun í. Í því ljósi er hægt að rifja upp ummæli Kenneths Orchard, aðalgreinanda Moody's, í viðtali við Reuters í janúar sem sagði tvennt geta ýtt undir jákvæðara lánshæfismat íslenska ríkisins.

Annars vegar væri það að draga úr gjaldeyrishöftum. Hins vegar væru það skref í átt að aðild að ESB. Bætt lánshæfismat hlýtur að vera kostur fyrir land og þjóð.

Ekki er útlit fyrir að fyrra skrefið náist að fullu án hins síðara. Eftir að umræðan um einhliða upptöku myntar kom upp í kjölfar efnahags- og gjaldmiðlahrunsins hafa margvísleg andmæli komið upp gegn einhliða upptöku, hvort sem það er dollari, evra eða önnur mynt. Eins og Helgi Hjörvar benti á á þingi á mánudag, þýðir slík einhliða upptaka ekki lækkun vaxta eða sama vaxtastig og í öðrum Evrópuríkjum. Þá myndi einhliða upptaka myntar ekki þýða niðurfellingu gjaldeyrishafta því myntin yrði í raun afar takmörkuð auðlind hér á landi.

Vonandi verður fljótlega hægt að taka einhver skref í þá átt að fella niður gjaldeyrishöftin, þó þau verði ekki með öllu afnumin. Ekki fyrr en við erum komin með stöðugan gjaldmiðil, sem meira að segja alþingismenn þjóðarinnar eru tilbúnir til að verja. Það hefur ekki virst vera raunin í umræðum þeirra á Alþingi.

Í umræðu um þingsályktunartillögu Jóns Magnússonar um að viðskiptanefnd verði falið að skoða kosti þess að taka upp aðra mynt, annaðhvort einhliða eða í samningum, sagðist Árni Þór Sigurðsson tilbúinn til að skoða alla möguleika, áður en hann kemst að niðurstöðu. Þingmenn Vinstri grænna eru því tilbúnir til að endurskoða afstöðu gagnvart Evrópusambandinu. Það er ekki eins og þessi umræða sé ný og fátt hafi verið um hana skrifað og sagt. Þingmenn flokksins - og flokkurinn sjálfur - ætti því að geta komist að niðurstöðu á nokkuð skömmum tíma.










×