Viðskipti innlent

Jón Steinsson hrópar húrra fyrir auðlindasköttum

Jón Steinsson lektor í hagfræði við Columbia er mjög ánægður með þau áform ríkisstjórnarinnar að koma á auðlinda- og umhverfissköttum. Þetta kemur fram í pistli sem Jón skrifar á vefritið Deiglan þar sem hann fjallar um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

 

„Enn er ekki ljóst nákvæmlega hvers eðlis þær skattahækkanir verða sem eiga að auka tekjur ríkissjóðs um 60 milljarða kr á næsta ári. Það er þó mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefnir að því að afla hluta af þessum tekjum með auðlinda- og umhverfissköttum. Þó fyrr hefði verið," segir Jón Steinsson í pistli sínum.

„Stór hluti af tekjum margra ríkja koma í gegnum auðlindagjöld/skatta af sameiginlegum náttúruauðlindum (aðallega olíu). Ísland er líklega það land í heiminum sem býr yfir mestum náttúruauðlindum miðað við höfðatölu. En á Íslandi hafa skattgreiðendur ekki notið góðs af þessum sameiginlegu auðlindum svo neinu nemur. Þær hafa þess í stað verið afhentar án endurgjalds (í tilfelli fiskistofnanna) eða seldar með afslætti til erlendra álfyrirtækja (í tilfelli orkunnar). Það er tími til kominn að slíkt breytist.

Auðlindagjöld og umhverfisskattar hafa mikilvæga kosti fram yfir hefðbundna skatta. Hefðbundin skattlagning er vinnuletjandi. Hún dregur því þrótt úr hagkerfinu. Auðlindagjöld ef rétt útfærð eru þess í stað eðlilegt leiguverð fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Rétt eins og ef við Íslendingar ættum sameiginlega gríðarmikið af íbúðum í New York, leigðum þær út og lækkuðum skatta á móti. Umhverfisskattar eru enn betri. Þeir skapa tekjur og draga úr útblæstri sem er hvort tveggja af hinu góða."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×