Lífið

Biblían logaði í messu

Töfrandi prestur Pétur Þorsteinsson er prestur Óháða safnaðarins, hann er auk þess einn stofnenda Hins íslenska töframannagildis. fréttablaðið/heiða
Töfrandi prestur Pétur Þorsteinsson er prestur Óháða safnaðarins, hann er auk þess einn stofnenda Hins íslenska töframannagildis. fréttablaðið/heiða

Pétur Þorsteinsson er einn stofnenda Hins íslenska töframannagildis auk þess sem hann er prestur Óháða safnaðarins. Pétur hefur haldið svokallaðar galdramessur tvisvar á ári hverju þar sem hann tvinnar kristilegum boðskap saman við töfra.

„Það eru sérstakar fjölskyldumessur hjá okkur einu sinni á misseri og þá hef ég tvinnað töfra inn í predikun mína til þess að ná athylgi bæði barna og fullorðinna. Þessar messur eru mjög vel sóttar og kirkjukaffið sem haldið er á eftir trekkir einnig mikið að,“ segir Pétur, en hann hefur meðal annars kveikt í Biblíunni í einni slíkri messu. „Það kviknaði í Biblíunni vegna þess að við vorum að tala um eldfim mál. Ég gat þó slökkt í henni áður en nokkrar skemmdir urðu á bókinni góðu,“ segir Pétur glaðlega.

Pétur hefur starfað sem prestur í fimmtán ár og segist hafa nýtt töfrana til að gera fjölskyldumessurnar sjónrænni fyrir kirkjugesti. „Ég hef tvisvar farið á töfranámskeið erlendis og svo hef ég einnig lært ýmislegt frá félögum mínum í töframannagildinu. Það er ýmislegt í þessu sem mér finnst vel hægt að tengja kristindómi og gerir messurnar sjónrænni fyrir vikið.“

Pétur segir mikinn tíma fara í að æfingar og tekur fram að á þeim fimmtán árum sem hann hefur starfað sem prestur hafi hann aldrei sýnt sama töfrabragðið tvisvar. Aðspurður segist hann þó ekki grípa til töfra í venjulegum sunnudagsmessum, heldur séu þeir aðeins fyrir fjölskyldumessurnar. „Börnin taka svo mikinn þátt í þessu og það er gaman að geta náð til þeirra á þennan hátt,“ segir Pétur að lokum.

Næsta galdramessa fer fram í mars á næsta ári í Háteigskirkju. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.