Körfubolti

Bradford er besti liðsfélagi sem þú getur fengið

Nick Bradford var lykilmaður í sigursælu liði Keflavíkur fyrir nokkrum árum
Nick Bradford var lykilmaður í sigursælu liði Keflavíkur fyrir nokkrum árum

Grindvíkingar hafa náð samningi við framherjann öfluga Nick Bradford sem var lykilmaður í meistaraliði Keflavíkur á árunum 2004-05.

Vísir greindi frá því í gærkvöld að Grindvíkingar væru að íhuga að bæta við sig erlendum leikmanni og að Bradford væri þar inni í myndinni. Nú hafa náðst samningar og vonast Grindvíkingar til þess að hann verði með liðinu annað kvöld þegar liðið mætir Njarðvík í Iceland Express deildinni.

Vísir hafði samband við Friðrik Ragnarsson þjálfara Grindavíkur og spurði hann hvort ekki hefði komið til greina fyrir liðið að ná frekar í miðherja.

"Í sjálfu sér er nóg fyrir mig að vera með tvo kraftframherja í þríhyrningssókninni sem við spilum og ég held að hann geti dekkað flesta þessa stóru menn í deildinni. Hann getur svo skapað mikil vandamál fyrir hin liðin á hinum enda vallarins, enda tveir metrar á hæð og getur sett boltann á gólfið," sagði Friðrik.

Hann segir það skipta talsverðu máli að fá mann sem er þekkt stærð í íslenska boltanum.

"Það er gott að fá mann sem maður veit að er góður og ég er ekki að taka mikinn séns með þessu. Ég hefði kannski geta fengið hreinan miðherja, en það hefði kannski riðlað okkar leik. Bradford er mikill karakter og er kjaftandi allan leikinn," sagði Friðrik.

Hjá Grindavík hittir Bradford fyrir gamla félaga sinn Arnar Frey Jónsson sem lék með honum hjá Keflavík á sínum tíma.

"Ég hlakka mikið til að spila með honum því þetta er besti liðsfélagi sem þú getur fengið. Hann tekur vel á því á æfingum, mætir tilbúinn í leiki og peppar alla upp í liðinu. Hann er er á topp fimm yfir bestu leikmenn sem ég hef spilað með og líklega ofarlega á þeim lista," sagði Arnar Freyr í samtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×