Lífið

Seabear lýsir eftir upphitun

Umslagið tilbúið
Nýja plata Seabear, We built a fire, kemur út í mars.
Umslagið tilbúið Nýja plata Seabear, We built a fire, kemur út í mars.

Norðrið nefnist tónleikaröð sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) og Iceland Express standa saman að. Nú er auglýst eftir upphitunaratriði fyrir fjórðu tónleikaferðina, sem leidd verður af hljómsveitinni Seabear. Markmiðið er að styðja við bakið á íslenskum tónlistarmönnum og hljómsveitum sem eru að hasla sér völl í Þýskalandi.

GusGus, Helgi Hrafn og Kira Kira eru meðal þeirra sem nú þegar hafa þrætt tónleikastaði á vegum Norðursins. Spilað verður á átta stöðum í ferð Seabear. Ferðin verður farin um mánaðamótin febrúar/mars. Áhugasamir ættu að skrifa til nordrid@icelandmusic.is.

Það er annars helst af Seabear að frétta að nýja platan We Built a Fire er tilbúin og kemur út í mars. Nú leggja allir sjö meðlimirnir í lagapúkkið, en ekki bara forsprakkinn Sindri Már Sigfússon, eins og til þessa. Seabear hitar upp fyrir múm á heimkomutónleikum þeirra í Iðnó í kvöld. Seabear hefur verið að hita upp fyrir múm úti í heimi að undanförnu og hafði meðal annars það upp úr krafsinu að David Fricke, blaðamaður Rolling Stone, kallaði Sindra Má „hinn íslenska Beck“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.