Sport

Íhuga að stofna NFL-lið í London

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tom Brady spilar á Wembley í kvöld.
Tom Brady spilar á Wembley í kvöld.

Sú tilraun NFL-deildarinnar að hafa einn leik á ári í London hefur algjörlega slegið í gegn og nú eru menn farnir að ræða að stofna lið í London.

Í kvöld verður spilaður NFL-leikur á Wembley en þetta er þriðja árið í röð sem þessi háttur er hafður á. Leikur kvöldsins er heimaleikur Tampa Bay Buccaneers sem mætir New England Patriots.

„Áhuginn á leiknum okkar heldur bara áfram að vaxa og við viljum nýta okkur það. Vonandi getum við komið með fleiri leiki til Bretlands á hverju ári," sagði Roger Goodell, yfirmaður NFL-deildarinnar.

Goodell segir að vel komi til greina að spila einnig í Manchester og Glasgow. Menn fara síðan hugsanlega lengra því byrjað er að spá í því að stofna lið í London.

„Ef við höldum áfram að fjölga leikjum og áhuginn helst þá er kominn grundvöllur fyrir því að stofna lið hérna. Við erum að skoða þetta mál þessa dagana," sagði Goodell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×