Lífið

Menningin er á Miðjunni

Nýr vefmiðill Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er ritstjóri nýs vefmiðils sem kallast Miðjan.  
fréttablaðið/anton
Nýr vefmiðill Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er ritstjóri nýs vefmiðils sem kallast Miðjan. fréttablaðið/anton

„Hugmyndin var að vera með miðil sem fjallar um menningu og afþreyingartengt efni. Við fjöllum um ótal mörg efni, allt frá bókmenntum og tónlist til matargerðar og barnauppeldis og erum með glæsilegan lista af fólki sem skrifar fyrir okkur,“ segir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir ritstjóri um hið nýja vefrit Miðjuna.

Vefritið er ólíkt öðrum vefmiðlum að því leyti að þar er ekki fjallað um stjórn- og efnahagsmálatengd efni heldur einbeita þau sér að menningu og öðru afþreyingartengdu efni. Aðspurð segir Bryndís Ísfold að sér hafi þótt sárvanta slíkan miðil í fjölmiðlaflóruna.

„Það er ekki á döfinni hjá okkur að fara að fjalla um pólitík eða bankahrun, það er ekki okkar vettvangur. Við höfum bara verið uppi í tæpan sólarhring en höfum þegar fengið góð viðbrögð frá lesendum sem hafa hrósað okkur fyrir að skrifa um skemmtilega og áhugaverða hluti.“

Bryndís Ísfold lauk nýverið námi og sagðist hafa ákveðið að skapa sitt eigið starf að námi loknu og ákvað að koma á laggirnar vefmiðli.

„Þetta var eitthvað sem mig langaði að starfa við og á svona tímum verður maður bara að skapa sér sína eigin vinnu enda ekki úr miklu að moða. Við erum þrjár, ég, Þórhildur Ólafsdóttir blaðamaður og ljósmyndarinn Julia M. Staples, sem stöndum að Miðjunni, en erum með fjöldann allan af efnilegum pennum sem skrifa fyrir okkur reglulega,“ segir Bryndís Ísfold. Innt eftir því hvernig nafnið á ritinu kom til svarar Bryndís Ísfold hlæjandi: „Miðjan er bara málið í dag.“ - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.