Lífið

Syngja til styrktar Fjölskylduhjálp

ólatónleikarnir til styrktar Fjölskylduhjálp fara fram í Víðistaðakirkju í kvöld og hefjast klukkan 20. Fréttablaðið/Anton
ólatónleikarnir til styrktar Fjölskylduhjálp fara fram í Víðistaðakirkju í kvöld og hefjast klukkan 20. Fréttablaðið/Anton

„Ég fer reglulega með barnaföt og leikföng upp í Fjölskylduhjálp og hef bara séð raðirnar lengjast,“ segir Soffía Karlsdóttir söngkona. Hún stendur ásamt hópi fólks fyrir jólatónleikum til styrktar Fjölskylduhjálp í kvöld. Tónleikarnir fara fram í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og hefjast klukkan 20.

„Þegar ég fór upp í Fjölskylduhjálp í byrjun nóvember náði röðin út á götu. Fólk er að ganga þangað langar leiðir með börnin sín, kerrur og poka og það er orðið hálf óraunverulegt að sjá þetta. Þá hringdi ég í Guðrúnu Árnýju systur mína og spurði hvort við gætum ekki gert eitthvað og við höfðum samband við þessar æðislegu stelpur,“ segir Soffía. Söngkonurnar sem koma fram á tónleikunum ásamt þeim systrum eru Dísella, Esther Jökulsdóttir, Guðbjörg Magnúsdóttir og Margrét Árnadóttir. Um undirleik sjá þeir Óskar Þormarsson, Vignir Þór Stefánsson, Ólafur Þór Kristjánsson og Pétur Valgarð Pétursson.

„Allir vilja hafa þetta ofsalega flott og við erum búnar að æfa vel. Það er mikill metnaður fyrir því að hafa þetta flotta tónleika og eftirminnilega stund. Það voru allir boðnir og búnir að leggja sína vinnu í þetta og við fengum meira að segja allt niður í posann gefins,“ útskýrir hún.

Miðasala verður við innganginn og rennur allur ágóði óskiptur til Fjölskylduhjálpar. „Fólk hefur verið að spyrja hvort það sé ekki forsala eða hvort hægt sé að panta miða, þannig að við eigum von á góðri mætingu,“ segir Soffía.- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.