Körfubolti

Snæfell vann Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson og félagar í Snæfelli unnu góðan sigur á Keflavík í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson og félagar í Snæfelli unnu góðan sigur á Keflavík í kvöld. Mynd/Stefán
Snæfellingar gerðu sér lítið fyrir og unnu sigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur í Iceland Express deild karla í kvöld.

Þá vann Stjarnan stóran sigur á Skallagrími í hinum leik kvöldsins, 102-74, í Borgarnesi.

Snæfell vann átta stiga sigur á Keflvíkingum, 81-73, á útivelli í þokkabót.

Keflvíkingar voru með yfirhöndina lengst af og náðu strax ellefu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 26-15. Snæfellingar náðu að minnka muninn í sjö stig í hálfleik er staðan var 40-33.

Keflvíkingar höfðu enn yfirhöndina þegar fjórði leikhluti hófst en þá tóku Snæfellingar til sinna ráða og skoruðu 29 stig gegn átján og unnu sem fyrr segir átta stiga sigur.

Lucious Wagner var stigahæstur með átján stig auk þess sem hann tók tíu fráköst. Sigurður Þorvaldsson og S Subasic skoruðu fjórtán stig hvor og þeir Hlynur Bæringsson og Jón Ólafur Jónsson tólf hvor. Hlynur tók þrettán fráköst þar að auki.

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði sautján stig fyrir Keflavík, Jón Nordal Hafsteinsson sextán auk þess sem hann tók fimmtán fráköst og Sigurður Þorsteinsson fjórtán.

Snæfellingar jöfnuðu þar með Keflvíkinga að stigum og fóru þar að auki upp í þriðja sæti deildarinnar á kostnað Keflavíkur. Bæði lið eru með 20 stig.

Fjögur lið eru nú með fjórtán stig eftir sigur Stjörnunnar í kvöld. Auk hennar eru það Njarðvík, Breiðablik og Tindastóll.

Justin Shouse skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna og Kjartan Atli Kjartansson sextán. Jovan Zdravevski skoraði sextán.

Hjá Skallagrími var Landon Quick stigahæstur með nítján stig og Igor Beljanski skoraði sautján. Sveinn Davíðsson skoraði sextán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×