Handbolti

Ólafur: Bestu nýliðarnir síðan ég, Dagur og Patti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur og hinn ungi Aron Pálmarsson ræða málin í kvöld.
Ólafur og hinn ungi Aron Pálmarsson ræða málin í kvöld. Mynd/Daníel

Ólafur Stefánsson spilaði sinn fyrsta leik með íslenska landsliðinu síðan á ÓL í Peking í kvöld. Var endurkoma hans vel fagnað og sannkölluð gleðitíðindi að Ólafur gefi aftur kost á sér.

„Það er mjög fínt að vera kominn aftur og þetta var bara gaman. Ég er léttur í góðu formi. Vel hvíldur frá þessum gaurum og þeir hvíldir á mér. Það var báðum til góðs. Ég þurfti að koma mjúklega aftur inn í hópinn og ekki vera með nein læti. Ég er búinn að vera mjög spakur," sagði Ólafur og glotti.

„Þetta var góð ákvörðun að koma til baka og það er líka æðislegt að koma heim. Svo þegar maður er í formi er gaman að berjast fyrir sinni stöðu í liðinu," sagði Ólafur sem er ánægður með strákana í liðinu.

„Mér líst vel á þessa nýliða. Þetta eru bestu þremenningar sem hafa komið í landsliðið síðan ég, Dagur og Patti," sagði Ólafur léttur og brosti. Hann var þar væntanlega að tala um þá Aron Pálmarsson, Sigurberg Sveinsson og Ólaf Guðmundsson.

„Þetta eru mjög flottir strákar. Það er heiður að fá að spila með þeim. Mér fannst gaman að ná að spila með Sigga Sveins og svona og núna er ég kominn hinum megin við borðið. Vonandi get ég kennt þeim eitthvað sem þeir taka svo með sér," sagði Ólafur Stefánsson.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×