Uppgjörið Þorsteinn Pálsson skrifar 24. október 2009 06:00 Síðustu kosningar snerust hvorki um pólitíska hugmyndafræði né framtíðina. Segja má að í fáum kosningum hafi málefni og stefnuyfirlýsingar einstakra stjórnmálaflokka borið jafn lítið á góma. Kosningarnar voru fyrst og fremst uppgjör við hrunið. Þær deildu völdum á ný með skírskotun til liðins tíma. Allt var þetta skiljanlegt í ljósi þeirra miklu atburða sem áttu sér stað fyrir ári. Gjaldmiðillinn hrundi, Seðlabankinn komst í þrot og viðskiptabankarnir féllu. Þetta þrennt lagði ómældar byrðar á skattborgarana og fyrirtækin. Við slíkar aðstæður verður ekki hjá því komist að horfa í baksýnisspegilinn og meta liðinn tíma. Vandinn er hins vegar sá að völdum hefur ekki verið deilt á grundvelli hugmyndafræðilegrar umræðu um framtíðina. Það skýrir um margt þá málefnalegu stjórnarkreppu sem sett hefur mark sitt á stjórnmálaatburði síðustu mánaða. Sá flokkur sem stóð lengst til vinstri fékk einhvern stærsta pólitíska ávinning sem íslensk stjórnmálasaga geymir. Ástæðan var ekki stefnan. Um hana var lítið talað. Hitt reið baggamuninn að flokkurinn var sá eini sem ekki hafði borið pólitíska ábyrgð á liðnum árum. Hann hefur nú undirtökin í ríkisstjórn þó að hann fari ekki með forystuna að formi til. Kosningarnar snerust um að búa til andstæður með tilliti til hrunsins. Engar aðrar kosningar á Íslandi hafa, eins og þær síðustu, snúist um það fyrst og fremst að útiloka fyrirfram breitt pólitískt samstarf. Niðurstaðan var sú að í fyrsta skipti í sögunni fengu vinstriflokkar tækifæri til að mynda stjórn algjörlega á eigin forsendum. Við myndun ríkisstjórnarinnar var lögð ofuráhersla á að draga upp mynd af fyrstu hreinu vinstristjórninni. Skilaboðin voru skýr: Það var verið að staðfesta ímynd um óbrúanlega hugmyndafræðilega gjá í íslenskri pólitík. Hugmyndafræðin Stóra spurningin er þessi: Er það í raun og veru svo að þetta hugmyndafræðilega gap skilji flokka og kjósendur að? Margt bendir til að svo sé ekki í þeim mæli sem gefið er í skyn. Skýrasta vísbendingin lýtur að norræna velferðarhugtakinu. Við myndun ríkisstjórnarinnar var það gert að eins konar tákni um afgerandi pólitísk umskipti. Það var kynnt sem nýjung í íslenskri pólitík. Í því var ennfremur fólgið mikið fyrirheit um að nú ætti að færa þjóðfélagið frá hægri til vinstri. Þegar betur er að gáð er norræna velferðarkerfið málamiðlun ólíkra stjórnmálaflokka sem í tímans rás hafa færst nær miðjunni. Hér á Íslandi varð Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda miklu stærri en hægriflokkar á Norðurlöndum fyrir þá sök að Ólafur Thors gerði strax í öndverðu innanflokks málamiðlun milli athafnafrelsis og velferðar að norrænum hætti. Þegar ríkisstjórnin kynnti norræna velferðarhugtakið til sögunnar sem nýmæli hefðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins því allt eins getað sagt: Eins og talað út úr okkar hjarta. Með öðrum orðum: Það er löngu liðin tíð að norræna velferðarhugtakið sé merkimiði til vinstri. Þvert á móti: Það hefur í áratugi verið ímynd sameiningar en ekki sundrungar í íslenskum stjórnmálum. Annað dæmi um pólitíska samloðun: Við stjórnarmyndunina féllust forystumenn VG á að gera endurreisnaráætlunina sem Sjálfstæðisflokkurinn vann með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að grundvelli stefnunnar í efnahags- og ríkisfjármálum. Atburðir síðustu vikna benda að vísu til að óvíst sé að bakland VG hafi úthald til að bregða í svo veigamiklum atriðum frá grundvallarstefnu flokksins. Á hinn veginn sýnir sú staðreynd að forystumenn VG gengust inn á þennan grundvöll að hugmyndafræðilega gjáin í íslenskum stjórnmálum er ekki jafn djúp og breið og virðist við fyrstu sýn. Þeirri ímynd er haldið á lofti fremur til að treysta völd en að ryðja framfaramálum braut. Framtíðin Þótt hugmyndafræðilegur ágreiningur sé í reynd minni en látið er í veðri vaka er hann eigi að síður til staðar. Hann kemur til að mynda fram í ólíkum hugmyndum til stóriðju. Þar greinir menn á um náttúruvernd en þó öllu meir um hlutverk erlendra fjárfesta í íslenskum þjóðarbúskap. Sú ólýðræðislega staða er uppi á teningnum að VG er eins og Þrándur í Götu þess að vilji meirihluta Alþingis fái notið sín á þessu sviði. Það gæti dregið endurreisnina á langinn. Þjóðin er að tapa á því að breiðara pólitískt samstarf fær ekki notið sín á þessu sviði. Annað dæmi um hugmyndafræðilegan ágreining lýtur að skattamálum. Þar ræður hugmyndafræði VG ferðinni. Hún mun leiða til þess að óhjákvæmileg ný tekjuöflun mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti. Vera má að þarna endurspeglist fremur gamlar kreddur en bjargföst hugmyndafræði. Einu gildir. Þessi veruleiki seinkar endurbata í þjóðarbúskapnum og veikir vörnina fyrir norræna velferðarkerfið. Af þessu má draga lærdóm. Hann er fyrst og fremst sá að óskynsamlegt er að ala á hugmyndafræðilegum ágreiningi sem er ekki til staðar í þeim mæli sem haldið er fram. Að þessu þurfa forystumenn beggja megin víglínunnar að gæta. Sundurlyndið er skaðlegt við ríkjandi aðstæður. Kjarni málsins er sá að hugmyndafræðilegar forsendur eru fyrir breiðari pólitískri samvinnu. Hún mun skila meiri árangri. Hugmyndafræði framtíðarinnar er mikilvægari en skotgrafir fortíðarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun
Síðustu kosningar snerust hvorki um pólitíska hugmyndafræði né framtíðina. Segja má að í fáum kosningum hafi málefni og stefnuyfirlýsingar einstakra stjórnmálaflokka borið jafn lítið á góma. Kosningarnar voru fyrst og fremst uppgjör við hrunið. Þær deildu völdum á ný með skírskotun til liðins tíma. Allt var þetta skiljanlegt í ljósi þeirra miklu atburða sem áttu sér stað fyrir ári. Gjaldmiðillinn hrundi, Seðlabankinn komst í þrot og viðskiptabankarnir féllu. Þetta þrennt lagði ómældar byrðar á skattborgarana og fyrirtækin. Við slíkar aðstæður verður ekki hjá því komist að horfa í baksýnisspegilinn og meta liðinn tíma. Vandinn er hins vegar sá að völdum hefur ekki verið deilt á grundvelli hugmyndafræðilegrar umræðu um framtíðina. Það skýrir um margt þá málefnalegu stjórnarkreppu sem sett hefur mark sitt á stjórnmálaatburði síðustu mánaða. Sá flokkur sem stóð lengst til vinstri fékk einhvern stærsta pólitíska ávinning sem íslensk stjórnmálasaga geymir. Ástæðan var ekki stefnan. Um hana var lítið talað. Hitt reið baggamuninn að flokkurinn var sá eini sem ekki hafði borið pólitíska ábyrgð á liðnum árum. Hann hefur nú undirtökin í ríkisstjórn þó að hann fari ekki með forystuna að formi til. Kosningarnar snerust um að búa til andstæður með tilliti til hrunsins. Engar aðrar kosningar á Íslandi hafa, eins og þær síðustu, snúist um það fyrst og fremst að útiloka fyrirfram breitt pólitískt samstarf. Niðurstaðan var sú að í fyrsta skipti í sögunni fengu vinstriflokkar tækifæri til að mynda stjórn algjörlega á eigin forsendum. Við myndun ríkisstjórnarinnar var lögð ofuráhersla á að draga upp mynd af fyrstu hreinu vinstristjórninni. Skilaboðin voru skýr: Það var verið að staðfesta ímynd um óbrúanlega hugmyndafræðilega gjá í íslenskri pólitík. Hugmyndafræðin Stóra spurningin er þessi: Er það í raun og veru svo að þetta hugmyndafræðilega gap skilji flokka og kjósendur að? Margt bendir til að svo sé ekki í þeim mæli sem gefið er í skyn. Skýrasta vísbendingin lýtur að norræna velferðarhugtakinu. Við myndun ríkisstjórnarinnar var það gert að eins konar tákni um afgerandi pólitísk umskipti. Það var kynnt sem nýjung í íslenskri pólitík. Í því var ennfremur fólgið mikið fyrirheit um að nú ætti að færa þjóðfélagið frá hægri til vinstri. Þegar betur er að gáð er norræna velferðarkerfið málamiðlun ólíkra stjórnmálaflokka sem í tímans rás hafa færst nær miðjunni. Hér á Íslandi varð Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda miklu stærri en hægriflokkar á Norðurlöndum fyrir þá sök að Ólafur Thors gerði strax í öndverðu innanflokks málamiðlun milli athafnafrelsis og velferðar að norrænum hætti. Þegar ríkisstjórnin kynnti norræna velferðarhugtakið til sögunnar sem nýmæli hefðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins því allt eins getað sagt: Eins og talað út úr okkar hjarta. Með öðrum orðum: Það er löngu liðin tíð að norræna velferðarhugtakið sé merkimiði til vinstri. Þvert á móti: Það hefur í áratugi verið ímynd sameiningar en ekki sundrungar í íslenskum stjórnmálum. Annað dæmi um pólitíska samloðun: Við stjórnarmyndunina féllust forystumenn VG á að gera endurreisnaráætlunina sem Sjálfstæðisflokkurinn vann með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að grundvelli stefnunnar í efnahags- og ríkisfjármálum. Atburðir síðustu vikna benda að vísu til að óvíst sé að bakland VG hafi úthald til að bregða í svo veigamiklum atriðum frá grundvallarstefnu flokksins. Á hinn veginn sýnir sú staðreynd að forystumenn VG gengust inn á þennan grundvöll að hugmyndafræðilega gjáin í íslenskum stjórnmálum er ekki jafn djúp og breið og virðist við fyrstu sýn. Þeirri ímynd er haldið á lofti fremur til að treysta völd en að ryðja framfaramálum braut. Framtíðin Þótt hugmyndafræðilegur ágreiningur sé í reynd minni en látið er í veðri vaka er hann eigi að síður til staðar. Hann kemur til að mynda fram í ólíkum hugmyndum til stóriðju. Þar greinir menn á um náttúruvernd en þó öllu meir um hlutverk erlendra fjárfesta í íslenskum þjóðarbúskap. Sú ólýðræðislega staða er uppi á teningnum að VG er eins og Þrándur í Götu þess að vilji meirihluta Alþingis fái notið sín á þessu sviði. Það gæti dregið endurreisnina á langinn. Þjóðin er að tapa á því að breiðara pólitískt samstarf fær ekki notið sín á þessu sviði. Annað dæmi um hugmyndafræðilegan ágreining lýtur að skattamálum. Þar ræður hugmyndafræði VG ferðinni. Hún mun leiða til þess að óhjákvæmileg ný tekjuöflun mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti. Vera má að þarna endurspeglist fremur gamlar kreddur en bjargföst hugmyndafræði. Einu gildir. Þessi veruleiki seinkar endurbata í þjóðarbúskapnum og veikir vörnina fyrir norræna velferðarkerfið. Af þessu má draga lærdóm. Hann er fyrst og fremst sá að óskynsamlegt er að ala á hugmyndafræðilegum ágreiningi sem er ekki til staðar í þeim mæli sem haldið er fram. Að þessu þurfa forystumenn beggja megin víglínunnar að gæta. Sundurlyndið er skaðlegt við ríkjandi aðstæður. Kjarni málsins er sá að hugmyndafræðilegar forsendur eru fyrir breiðari pólitískri samvinnu. Hún mun skila meiri árangri. Hugmyndafræði framtíðarinnar er mikilvægari en skotgrafir fortíðarinnar.