Lífið

Vesturbæjar eftir-krútt

Útgáfutónleikar á sunnudaginn Pascal Pinon: Ásthildur, Halla, Jófríður og Kristín Ylfa.
Útgáfutónleikar á sunnudaginn Pascal Pinon: Ásthildur, Halla, Jófríður og Kristín Ylfa.

Hljómsveitin Pascal Pinon var stofnuð af fjórum fjórtán ára stelpum í desember í fyrra. Þær eru ekkert að tvínóna við hlutina og gefa á sunnudaginn út fyrstu plötuna sína. Hún inniheldur ellefu frumsamin lög.

„Við erum allar í Hagaskóla,“ segir Kristín Ylfa, þar sem hún er einmitt stödd í stærðfræðitíma. „Ætli megi ekki bara kalla okkur Vesturbæjar eftir-krútt hljómsveit. Við tókum plötuna upp sjálfar. Flest lögin eru á íslensku og flest eftir Jófríði. Hún hlustar voða mikið á Björk en ég veit ekki hvort það hefur einhver áhrif á lagasmíðarnar hennar. Hún samdi allt efnið á plötunni nema eitt lag sem við gerðum allar saman. Svo er einn texti eftir Davíð Stefánsson.“

Hljómsveitin hefur spilað á fjölmörgum tónleikum, meðal annars á Innipúkanum, Réttum og Airwaves. Þær hafa áður gefið út smáskífu og áttu eitt lag á Trúbatrix safndiskinum. „Þetta hefur bara gengið mjög vel,“ segir Kristín. „Okkur er tekið mjög vel í bransanum og ekkert vesen að komast inn á staði að spila.“

Plata Pascal Pinon kemur eins og áður segir út á sunnudaginn 22. nóvember. Samdægurs heldur hljómsveitin útgáfutónleika í Norræna húsinu klukkan 19. Upphitun verður í höndum hljómsveitarinnar Nolo. Aðgangseyrir er 500 kr.- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.