Lífið

Leikrit um einelti

Kári segir Devotion vera unglingaleikrit fyrir alla aldurshópa, en leikritið verður sýnt í Leikfélagi Hafnarfjarðar 18. og 19. desember.
Kári segir Devotion vera unglingaleikrit fyrir alla aldurshópa, en leikritið verður sýnt í Leikfélagi Hafnarfjarðar 18. og 19. desember.

„Þetta er unglingaleikrit fyrir alla aldurshópa,“ segir Kári Viðarsson leikari í leikhópnum The Fiasco Division. Hann setur upp leikritið Devotion í Leikfélagi Hafnarfjarðar ásamt Aldísi Davíðsdóttur leiklistarnema og Árna Grétari Jóhannssyni leikstjóranema. Bæði nema þau við Rose Bruford College í London en Kári er útskrifaður frá skólanum.

„Okkur langaði að gera leikrit sem fjallar um ofbeldi og einelti því að það er mikil umræða um þetta í samfélaginu, Okkur langaði líka til að fá tækifæri til að skoða þetta sjálf. Þegar maður er að vinna svona leikrit gefst oft tækifæri fyrir leikara til að kafa djúpt ofan í viðfangsefnið og við erum búin að læra mikið af því að búa þetta til,“ segir Kári. Tvær sýningar verða 18. desember og ein hinn 19. og þar sem einn leikarinn er frá Bretlandi verður leikið á ensku.

„Leikritið er hrátt, fyndið, ögrandi og veltir upp hugmyndinni um hvenær leikur hættir að vera leikur og verður að alvöru. Það snertir einnig á viðkvæmum málum eins og einelti og annars konar ofbeldi og býður upp á tækifæri fyrir áhorfandann til að íhuga eigin skoðanir og hugmyndir hvað varðar ýmiss konar árekstra milli hópa og einstaklinga og þau vandamál sem þessir árekstrar geta valdið,“ útskýrir Kári.

„Eftir áramót förum við í eldri bekki grunnskóla og í framhaldsskólum víðs vegar um landið, í þeim tilgangi að varpa ljósi á og opna umræðu um einelti og ofbeldi. Þetta hefur mikið fræðslugildi fyrir alla aldurs­hópa og ég held að allir hefðu gagn og gaman af því að sjá sýninguna,“ segir hann. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.