Lífið

Will Ferrell fær of há laun

Will Ferrell.
Will Ferrell.

Will Ferrell er sá kvikmyndaleikari í Hollywood sem fær allt of há laun samkvæmt nýjum lista tímaritsins Forbes. Í öðru sæti er Ewan McGregor og í því þriðja er Billy Bob Thornton.

Þrátt fyrir að Ferrell sé einn vinsælasti gamanleikarinn í Hollywood eru launin sem hann fær í vasann ekki í neinum takti við gróðann af myndunum sem hann leikur í. Samkvæmt útreikningum Forbes græddu síðustu myndir Ferrells aðeins 3,29 dollara á hverjum dollara sem honum var borgað fyrir vinnu sína.

Skoski leikarinn Ewan McGregor er næstur í röðinni og í þriðja sæti er Billy Bob Thornton, Gamanleikarinn Eddie Murphy er fjórði og rapparinn Ice Cube í fimmta sæti. Eftir að Eddie Murphy lék í nokkrum vinsælum myndum í röð á borð við The Nutty Professor krafðist hann hærri launa fyrir næstu myndir sínar. Síðan þá hafa vinsældir hans dvínað þrátt fyrir að hann fái enn þá feitt launaumslag fyrir hverja einustu mynd. Síðasta floppið hans er Meet Dave sem var rökkuð niður af gagnrýnendum.

Í könnun Forbes var ekki bara litið til aðsóknar í kvikmyndahúsum heldur einnig sölu á mynddiskum og sjónvarpsréttindum. Hjartaknúsarinn Tom Cruise varð sjötti á listanum. Ástæðan fyrir því eru samningar sem hann gerði þar sem hann fékk ekki greitt fyrir hlutverkin heldur fékk hluta af ágóðanum í staðinn.

Eina leikkonan sem komst á topp tíu listann var Drew Barrymore sem lenti í sjöunda sæti. Í síðasta mánuði birti Forbes tölur yfir þær leikkonur sem skiluðu mestum hagnaði í Hollywood og varð hin ástralska Naomi Watts hlutskörpust. Áður hafði Shia LaBeouf náð efsta sætinu yfir þá karlleikara sem öruggast er að veðja á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.