Körfubolti

Leikmenn FSu reknir fyrir drykkjuskap

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brynjar Karl Sigurðsson.
Brynjar Karl Sigurðsson.

Úrvalsdeildarlið FSu í körfubolta mun veikjast stórlega því væntanlega verða einhverjir leikmenn liðsins reknir úr skólanum í dag fyrir agabrot.

Þetta staðfesti Brynjar Karl Sigurðsson, guðfaðir Akademíunnar, við Vísi í dag.

Hann sagði menn vera að fara yfir málið og hugsanlega myndu einhverjir leikmenn sleppa við aðra refsingu en brottrekstur. Því sé ekki ljóst hversu margir verða reknir.

Mjög strangar reglur eru fyrir þá leikmenn sem kjósa að koma í körfuboltaakademíu Brynjars á Selfossi.

Leikmenn verða að taka að lágmarki 17 einingar á önn í skólanum og svo mega þeir aldrei detta í það meðan á skólagöngunni stendur.

Agabrotið snýst einmitt um að einhverjir leikmenn liðsins fengu sér of mikið í staupinu.

FSu situr á botni Iceland Express-deildar karla en liðið hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×