Lífið

Galdrakarlar spila breytt lög

mugison Tónlistarmaðurinn Mugison er á tónleikaferð um landið til að kynna sína nýjustu plötu.
mugison Tónlistarmaðurinn Mugison er á tónleikaferð um landið til að kynna sína nýjustu plötu.

„Með þessa galdrakarla, Davíð, Adda, Guðna og Pétur, þarf maður að vera ansi lélegur að klúðra þessu,“ segir tónlistarmaðurinn Mugison um sína nýjustu plötu. Þar er að finna níu gömul lög eftir hann í nýjum útgáfum, þar á meðal Murr Murr, I Want You og Go Blind. Lögin spiluðu þeir félagar í breytum útgáfum á tónleikaferð sinni um heiminn til að fylgja eftir plötunni Mugiboogie.

„Þetta voru vel yfir hundrað tónleikar á einhverju hálfu ári. Síðustu tvö ár höfum við túrað dálítið mikið og mér fannst svo gaman hvað lögin voru alltaf að breytast, sem er kannski eðlilegt þegar maður spilar svona mikið,“ segir Mugison.

„Ég ákvað að kýla á þetta og skrásetja þetta, þannig að ég fór með strákunum í stúdíó og pantaði pizzur og bjór. Þetta var æðislegur dagur.“

Mugison er þessa dagana á tónleikaferð um landið til að kynna nýju plötuna ásamt gítargoðsögninni Björgvini Gíslasyni. „Það hefur gengið mjög vel. Það er frábært að fá að kynna Bjögga fyrir minni kynslóð sem þekkir hann kannski ekki nógu vel.“

Framundan hjá Mugison er að ljúka við gerð nýs hljóðfæris, sem hann er einmitt að prufukeyra á tónleikaferðinni. Á næsta ári eru síðan væntanlegar tvær plötur frá honum. Önnur þeirra er sungin á íslensku en hin er tilraunakennd þar sem nýja hljóðfærið kemur við sögu. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.