Körfubolti

Friðrik: Meiri aga, meiri áræðni

Mynd/Daníel

"Það þýðir ekkert annað en að gefa allt í þetta og taka leikinn á eftir," sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í annan leik liðsins gegn KR í lokaúrslitunum í kvöld.

"Þú vilt ekki lenda undir 2-0 í svona einvígi og við verðum að mæta tilbúnir í þetta. Við erum ósáttir við okkur eftir fyrsta leikinn," sagði Friðrik.

Hann segist ekki taka neina huggun frá lokaspretti liðsins í síðasta leik þar sem liðið náði að koma á smá spennu í lokin.

"Í sjálfu sér ekki. Þetta snýst bara um að fá vinning, hvernig sem hann kemur. Við vorum bara að spila illa í síðasta leik, en ef við spilum okkar leik frá byrjun, eigum við að geta unnið."

En hvað verða Grindavíkingar að gera betur ef þeir ætla sér sigur í kvöld?

"Þetta er fyrst og fremst hugarfarið. Við verðum að hætta að spila sem fimm einstaklingar í sókninni og láta boltann vinna fyrir okkur. Við vorum að taka mjög erfið skot og léleg ákvarðanataka okkar í sókninni varð til þess að við fengum öll þessi hraðaupphlaup í bakið á okkur. Þeir spiluðu stífa og fína vörn, en við brugðumst illa við því og þessi hraðaupphlaup voru það sem fór með leikinn fyrir okkur. Við þurfum að vera agaðari og áræðnari í okkar leik," sagði Friðrik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×