Systurnar Serena og Venus Williams frá Bandaríkjunum mætast á tennisvellinum í 23. skipti á ferli sínum í dag þegar þær keppa í úrslitaleik Sony Ericsson mótsins í Doha í Katar.
Til þessa hefur Serena unnið tólf innbyrðis einvígi en systir hennar tíu. Sony Ericsson mótið markar lok tennistímabilsins og því mikið undir en Venus vann einmitt mótið á síðasta ári og hefur því titil að verja.
Þegar hefur hins vegar verið tilkynnt að Serena sé búin að endurheimta toppsæti styrkleikalista alþjóða tennissambandsins en heimslistinn verður birtur í heild sinni á mánudag.