Körfubolti

Nick Bradford inni í myndinni hjá Grindvíkingum

Nick Bradford var bæði góður og litríkur leikmaður þegar hann spilaði með Keflavík á árunum 2003-05
Nick Bradford var bæði góður og litríkur leikmaður þegar hann spilaði með Keflavík á árunum 2003-05

Grindvíkingar skoða nú alvarlega þann möguleika að bæta við sig erlendum leikmanni í baráttunni í Iceland Express deildinni.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að Grindvíkingar væru í viðræðum við hinn litríka Nick Bradford sem gerði garðinn frægan með Íslandsmeisturum Keflavíkur fyrir nokkrum árum.

Bradford hefur verið að spila í Frakklandi undanfarin ár og er góður kunningi Arnars Freys Jónssonar, leikstjórnanda Grindvíkinga og fyrrum leikmanni Keflavíkur.

Óli Björn Björgvinsson formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur staðfesti í samtali við Vísi í kvöld að Bradford væri einn nokkurra leikmanna sem Grindavík væri að skoða ef til þess kæmi að félagið bætti við sig erlendum leikmanni.

"Við Friðrik (Ragnarsson) þjálfari vorum eiginlega búnir að blása það endanlega af milli jóla og nýárs að bæta við okkur útlendingi, en svo komu nokkrir menn að máli við mig á dögunum og viðruðu þá hugmynd að reyna að safna fé fyrir erlendum leikmanni," sagði Óli Björn í samtali við Vísi.

Þetta er ekki ósvipað og Borgnesingar gerðu þegar þeir söfnuðu fyrir Igor Beljanski fyrr í vetur. Allir lögðust á eitt til að styrkja liðið.

"Af hverju ættum við ekki að geta þetta úr því Borgnesingar gerðu það?" sagði Óli Björn.

Hann reiknar með því að ákvörðun verði tekinu um það á allra næstu dögum hvort grundvöllur sé fyrir því að fá útlending til liðsins.

Grindavík er í öðru sæti í Iceland Express deildinni með 20 stig, fjórum stigum minna en topplið KR, en þessi lið hafa verið í nokkrum sérflokki það sem af er vetrar og flestir tippa á að þau leiki til úrslita í vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×